Skoðun

Lengri vinnudag?

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar
Nú standa yfir stjórnarmyndunarviðræður Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Formennirnir hafa aðallega rætt um efnahagsmál og stöðu ríkissjóðs sem eðlilegt er. Efnislega fékkst þó lítið upp úr þeim nema að þeir eru sammála um að einfalda skattkerfið og Bjarni Benediktsson vísar í áherslur flokksins um lækkun skatta til að auka ráðstöfunartekjur heimilanna. Fram hefur komið að formennirnir leggja áherslu á einföldun á kerfinu og jákvæða hvata.

Hvað eiga formennirnir við? Atvinnuþátttaka var mest á Íslandi árið 2011 af OECD-ríkjunum, eða tæp 80%. Það ár unnum við Íslendingar líka flestar vinnustundir á ári miðað við hinar Norðurlandaþjóðirnar og erum rétt undir meðaltali OECD-ríkjanna. Við eignuðumst líka flest börn Evrópuþjóða, að Írum einum undanskildum. Þá hefur komið fram í skýrslu McKinsey um vaxtarmöguleika á Íslandi að framleiðni er minni hér en annars staðar á Norðurlöndunum. Í fróðlegri rannsókn ASÍ um lífskjör á Norðurlöndunum kemur fram að ?Íslendingar þurfi að vinna meira en aðrir Norðurlandabúar til að afla álíkra efnahagslegra lífskjara ? og hafi þar af leiðandi lakari lífskjör þar sem frítími er styttri?. Í sömu rannsókn kemur einnig fram að skattbyrði hér á landi er mun lægri en í Danmörku og Svíþjóð og heldur hærri en í Noregi. Þegar litið er til tekna upp að rúmlega 300.000 krónum á mánuði er skattbyrðin langlægst hér á landi.

Getur verið að formennirnir vilji að fólk vinni meira og auki þannig ráðstöfunartekjur sínar? Í því sambandi er rétt að minna á að BSRB hefur ályktað um mikilvægi þess að stytta vinnuvikuna í 36 stundir. Það er eðlileg krafa í landi þar sem atvinnuþátttaka kvenna og karla er mikil, vinnutími langur og fjölskyldur barnmargar.

Samfylkingin hefur lagt áherslu á að efla verðmætaskapandi atvinnugreinar og auka framleiðni í íslensku atvinnulífi. Ég vona að formennirnir tveir velji að halda áfram á þeirri braut í stað þess að skapa ?jákvæða hvata? til lengri vinnudags.




Skoðun

Sjá meira


×