Innlent

Lokað á ólöglegt niðurhal Norðmanna

Snæbjörn Steingrímsson
Snæbjörn Steingrímsson
Norska Stórþingið samþykkti í vikunni lagafrumvarp sem gæti takmarkað verulega möguleika Norðmanna á ólöglegu niðurhali. Framkvæmdastjóri SMÁÍS, samtaka myndréttarhafa, kallar eftir því að sambærileg lög verði sett hér á landi.

„Það skortir úrræði á Íslandi til að bregða fæti fyrir ólöglegt niðurhal. Hér hafa verið reknar síður með íslensku eignarhaldi sem dreifa höfundarvörðu efni án greiðslu í mörg ár án þess að hægt hafi verið að loka á þær,“ segir Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS.

Þá segir Snæbjörn að íslensk stjórnvöld ættu að líta til nýju laganna í Noregi. „Íslensk stjórnvöld ættu að skoða vel þá vinnu sem hefur farið fram í Noregi. Þessi lög, sem víðtækur stuðningur var við í þinginu, eru afrakstur margra ára vinnu þar sem allir hagsmunaaðilar voru leiddir að borðinu og vandað til verks,“ segir Snæbjörn.

Norsku lögin veita þarlendum eftirlitsaðilum heimild til þess að loka fyrir aðgengi að vefsíðum, bæði þeim sem skráðar eru í Noregi og öðrum, sem brjóta með stórfelldum hætti gegn höfundarréttarlögum. Þá verður framvegis hægt að bera kennsl á þá einstaklinga sem grunur leikur á að hafi brotið höfundarréttarlög á netinu með því að skoða IP-tölu viðkomandi.

Mikill stuðningur var við lagafrumvarpið í norska Stórþinginu en einungis tveir þingmenn kusu gegn því. Nýju lögin taka gildi þann 1. júlí næstkomandi og er fastlega búist því að gerð verði tilraun til þess að loka fyrir aðgang að skráardeilingarsíðum eins og hinni sænsku The Pirate Bay í kjölfarið en norskir dómstólar munu hafa vald til þess.

Rétthafar tónlistar, kvikmynda, bóka og annars efnis sem hægt er að dreifa á stafrænu formi án mikilla vandkvæða hafa lengi haft horn í síðu ólöglegs niðurhals. Telja rétthafar að þeir verði árlega af stórum upphæðum vegna ólöglegs niðurhals.

Þannig segir Snæbjörn að ólöglegt niðurhal á Íslandi kosti hinar skapandi greinar hátt í tvo milljarða á ári. „Við létum gera könnun á neyslu Íslendinga á kvikmynda- og tónlistarefni í mars 2011. Sú könnun leiddi í ljós að langstærstur hluti neyslunnar fer fram í gegnum vefsíður þar sem listamenn og rétthafar fá ekkert fyrir vinnu sína. Enn fremur sáum við að tæplega fimmtungur hefði keypt efnið hefði það ekki verið aðgengilegt í gegnum þessar síður,“ segir Snæbjörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×