Skoðun

5% kvenna finnst þær öruggar

Inga Dóra Pétursdóttir skrifar
Það er algjörlega óásættanlegt að aðeins fimm prósentum kvenna í Nýju-Delí finnist þær vera öruggar. Það er jafnógnvekjandi að fimmtíu prósent þeirra karlmanna sem tóku þátt í könnun UN Women sögðust hafa beitt konur kynferðislegu ofbeldi og helmingur þeirra á síðustu sex mánuðum. Í sömu könnun kom fram að tveir af hverjum fimm aðspurðum karlmönnum voru samþykkir því að „konur sem eru á ferð um nætur verðskuldi að vera kynferðislega áreittar“.

Augu heimsins hafa beinst að Nýju-Delí eftir að hin 23 ára Jyoti Singh Pandy lést eftir hrottalega hópnauðgun. Í síðustu viku lést fjögurra ára gömul stúlka í Nýju-Delí af völdum nauðgunar. Nú liggur fimm ára gömul telpa á spítala, þungt haldin eftir nauðgun.

Stundum er veruleikinn svo þungbær að það reynist okkur erfitt að meðtaka hann en það virðist sem andlát Jyoti Singh Pandy hafi verið dropinn sem fyllti mælinn. Þúsundir kvenna og manna hafa staðið fyrir kröftugum mótmælum í Nýju-Delí frá því í desember. Ung kona sem tekið hefur þátt í mótmælunum segir sig og aðra hafa fengið sig fullsadda á ástandinu. Verið sé að mótmæla því að hingað til hafi þolendum nauðgana verið kennt um ofbeldið; nú sé kominn tími til að vísa ábyrgðinni á gerendurna sjálfa og á aðgerðaleysi yfirvalda.

Mótmælin hafa vissulega borið árangur. Aldrei hefur jafnmikil opinber umræða átt sér stað á Indlandi um réttindi kvenna og mikilvægi þess að útrýma kynbundnu ofbeldi. Yfirvöld skipuðu nefnd til að endurskoða lagarammann er varðar kynferðisofbeldi og skilaði nefndin yfirgripsmikilli skýrslu í febrúar.

Nú er það ekki aðeins almennings á Indlandi að halda yfirvöldum við efnið, heldur okkar allra. UN Women, með ríkum stuðningi fjölda Íslendinga, mun beita stjórnvöld þrýstingi að framfylgja tillögunum. Síðast en ekki síst mun UN Women vinna af öllu afli að því að koma af stað róttækri hugarfarsbreytingu á öllum sviðum samfélagsins; ofbeldi gegn konum og stúlkum á aldrei að líðast.




Skoðun

Sjá meira


×