Innlent

Eftirlitsaðilar sáu ekkert athugavert

Stígur Helgason skrifar
Allt að tveggja ára fangelsi liggur við brotinu sem Lýður og Bjarnfreður eru sakaðir um. Hér sjást þeir ásamt verjendum sínum, Gesti Jónssyni, lengst til vinstri, og Þorsteini Einarssyni, öðrum frá hægri.
Allt að tveggja ára fangelsi liggur við brotinu sem Lýður og Bjarnfreður eru sakaðir um. Hér sjást þeir ásamt verjendum sínum, Gesti Jónssyni, lengst til vinstri, og Þorsteini Einarssyni, öðrum frá hægri. Fréttablaðið/stefán
Eftirlitsaðilar sáu ekkert athugavert við hlutafjáraukninguna í Existu fyrr en hálfu ári eftir að hún var um garð gengin. Þeim var þó fullkunnugt um að einungis hefði einn milljarður verið greiddur fyrir fimmtíu milljarða hlutafjáraukningu.

Þetta kom fram í máli Helga Sigurðssonar, fyrrverandi yfirlögfræðings Nýja Kaupþings, við aðalmeðferð í máli Sérstaks saksóknara gegn Lýði Guðmundssyni og Bjarnfreði Ólafssyni í Héraðsdómi Reykjavíkur nú í morgun.

Nýja Kaupþing kærði málið, en Helgi segir að eftirlitsaðilar, Fyrirtækjaskrá, Kauphöll Íslands og Fjármálaeftirlitið, hafi í engu brugðist við þegar fulltrúar bankans gerðu athugasemdir við framkvæmd hlutafjáraukningarinnar þegar hún átti sér stað. „Þeim fannst þetta greinilega ekkert athugavert,“ sagði Helgi.

Í málinu eru Lýður Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Existu, og Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður á Logos, ákærðir fyrir brot á hlutafélagalögum.

Málið snýst um fimmtíu milljarða hlutafjáraukningu Exista í desember 2008, sem aðeins var greitt fyrir með einum milljarði króna. Hann var fenginn að láni frá Lýsingu, dótturfélagi Existu.

Kveðið er á um það í 16. grein hlutafélagalaga að ekki megi greiða minna en nafnverð fyrir hlut í félagi. Samkvæmt því hefði átt að greiða 50 milljarða fyrir hlutafjáraukninguna.

Lýður og Bjarnfreður neita báðir sök í málinu. Lýður segir af og frá að hann hafi brotið lög vísvitandi. „Ég tel okkur hafa greitt sannvirði fyrir hlutinn,“ sagði hann í morgun, og bar fyrir sig mat bæði frá Deloitte og Fjármálaeftirlitinu, sem hafi lagt blessun sína yfir gjörninginn.“

Í öðrum lið ákærunnar er Lýður ákærður, ásamt Bjarnfreði, fyrir að skýra rangt og villandi frá hlutafjárhækkuninni með tilkynningu til Fyrirtækjaskrár.

Bjarnfreður sagðist fyrir dómi í gær hafa verið fullur efasemda um að fallist yrði á þessa leið Existu-manna, en hann hafi engu að síður hafa gert rétt með því að senda tilkynningu um hækkunina til Fyrirtækjaskrár, enda hafi hann þar bara verið að sinna skyldu sinni sem lögmaður félagsins.

„Hún er 100% hárrétt og ég mundi orða hana eins aftur í dag. Það var rétt ákvörðun hjá mér að gera eins og mér var boðið af umbjóðanda mínum.“

Endurskoðendur Deloitte koma nokkuð við sögu í málinu. „Afstaða okkar kom skýrt fram – að við gætum ekki skrifað upp á þessa fimmtíu milljarða hækkun,“ sagði endurskoðandinn Hilmar Alfreðsson fyrir dómi um fundi sem endurskoðendurnir áttu með Existu-mönnum. Það sama sagði Þorvarður Gunnarsson, forstjóri Deloitte.

Þeir unnu hins vegar skýrslu um viðskiptin, sem Existu-menn og lögmenn Logos segjast hafa túlkað sem svokallaða sérfræðiskýrslu í skilningi hlutafélagalaga, þannig að Deloitte hafi með henni lagt blessun sína yfir viðskiptin.

Sjálfir segja endurskoðendurnir það af og frá og kvörtuðu meira að segja til Logos þegar þeir sáu að Bjarnfreður hafði sent skýrsluna til Fyrirtækjaskrár með tilkynningunni um hlutafjáraukninguna.

Aðalmeðferð málsins heldur áfram í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×