Innlent

Utanríkismál veigaminni í næstu stjórn

Þorgils Jónsson skrifar
Ef hætt verður við ESB-umsókn mun mæða minna á utanríkisráðuneytinu en áður. Margt þykir benda til þess að formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggi meiri áherslu á fjármálaráðuneytið í viðræðum sínum.
Ef hætt verður við ESB-umsókn mun mæða minna á utanríkisráðuneytinu en áður. Margt þykir benda til þess að formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggi meiri áherslu á fjármálaráðuneytið í viðræðum sínum.
Utanríkisráðuneytið verður mögulega veigaminna á næsta kjörtímabili, en hefur verið síðustu ár, miðað við áherslur Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þetta segir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur.

Ekkert hefur enn skýrst um framvindu stjórnarmyndunarviðræðna flokkanna, hvorki um málefni né mögulega stólaskipan. Margt bendir þó til þess að hvorugur formannanna muni taka að sér utanríkisráðuneytið.

Embætti utanríkisráðherra var nær óslitið í höndum formanns ríkisstjórnarflokks á árunum 1987 til 2009 áður en fráfarandi ríkisstjórn tók við, að undanskildu tæpu ári, frá 2006 til 2007, þegar Valgerður Sverrisdóttir gegndi starfinu. Sú stjórn var þó mynduð með formann í utanríkismálunum.

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að utanríkisráðuneytið hafi jafnan verið talið koma forsætisráðuneytinu næst, bæði hvað varðar mikilvægi og virðingu. „Það er erfitt að segja hvort það hafi þegar breyst, en ef annar formannanna nú ákveður að fara frekar í fjármálaráðuneytið mun það sýna áherslur þess flokks með skýrum hætti. Hvorki Bjarni né Sigmundur hafa lagt mikla áherslu á utanríkismál hingað til og maður hefði haldið að sérstaklega Framsókn væri frekar umhugað um að fá fjármálaráðuneytið en utanríkisráðuneytið.“

Guðni tekur undir það og segir að í ljósi áherslu flokkanna á efnahagsmál sé líklegra að meiri áhersla verði á fjármálaráðuneytið í yfirstandandi viðræðum. Það mætti túlka sem minni áherslu á utanríkismál. „Sérstaklega því hugur beggja flokka virðist standa til þess að hverfa frá áformum um að ljúka aðildarviðræðum við ESB og leggja í dóm þjóðarinnar.“

Baldur segir að ráðuneytið verði fyrst um sinn veigaminna ef ESB-umsóknin verður úr sögunni, en þó séu nýjar víddir í utanríkisstefnu Íslands. „Það eru til dæmis Norðurslóðir og Asíuvíddin auk þess sem þróunarstarf er umsvifameira nú en áður. Annars eru margir málaflokkar sem meiri áhersla yrði lögð á, og fróðlegt að sjá hvort næsti ráðherra muni leggja eins mikið upp úr Norðurslóðamálum, sem að vísu er nokkur sátt um í íslenskum stjórnmálum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×