Erlent

Fatarisar grípi til aðgerða í Bangladess

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar
Þessi kona bar kennsl á lík dóttur sinnar um helgina. Enn er mjög margra saknað og líklega langt þar til hægt verður að segja til um nákvæman fjölda þeirra sem létust.
Þessi kona bar kennsl á lík dóttur sinnar um helgina. Enn er mjög margra saknað og líklega langt þar til hægt verður að segja til um nákvæman fjölda þeirra sem létust. Mynd/AP
Fatafyrirtæki verða að grípa til raunverulegra aðgerða til að bæta aðbúnað starfsmanna í Bangladess. Það dugar ekki lengur að reyna að þagga niður vandann. Þetta segja almannatenglasérfræðingar sem AP-fréttastofan hefur rætt við.

Nú er ljóst að yfir sex hundruð manns létust þegar bygging við Rana-torg í Dakka hrundi til grunna. Yfirvöld höfðu fyrirskipað að byggingunni yrði lokað en yfirmenn fimm fataverksmiðja hótuðu að draga mánaðarlaun af starfsmönnum sem ekki mættu til vinnu. Þrjár efstu hæðir hússins voru byggðar án leyfis og húsið var ekki ætlað verksmiðjurekstri.

Þrýst hefur verið á vestræn stórfyrirtæki að grípa til aðgerða til að bæta ástandið í Bangladess. Margir undirskriftarlistar eru til að mynda í gangi á netinu.

„Ég held að það sé ekki lengur nóg að segja: við erum ekki viðriðnir þessar ákveðnu verksmiðjur. Fyrirtækin halda að þegar eitthvað hræðilegt eins og þetta gerist muni almannatengsl laga það. En nei. Þau verða að fara og laga vandann. Og þá, aðeins þá, geta þau auglýst að þau hafi gert eitthvað til að laga ástandið,“ segir Caroline Sapriel, sem er yfirmaður CS&A, stórs almannatengslafyrirtækis.

Annar almannatengill, Rahul Sharma, segir stóru fataframleiðendurna treysta á skammtímaminni vestrænna neytenda, sem einblíni á verðið en hugsi ekki um það hvar vörur eru framleiddar. Það sé hins vegar áhættusöm stefna, enda þurfi lítið til að skemma orðspor stórra fyrirtækja.

Aðeins breska fyrirtækið Primark og kanadíska fyrirtækið Loblaw hafa viðurkennt að framleiðsla á fötum frá þeim hafi farið fram í verksmiðjunum. Bæði fyrirtækin hafa lofað að borga fórnarlömbum og fjölskyldum þeirra bætur vegna málsins. Forstjóri Loblaw hefur bent á að 28 fyrirtæki til viðbótar hafi verslað við verksmiðjurnar, og hefur skorað á þau fyrirtæki að stíga fram.

Mörg stórfyrirtæki hafa fundað með forsvarsmönnum fataiðnaðarins í Bangladess undanfarna daga. Þeirra á meðal er fatarisinn H&M, sem er stærsti kaupandi fata frá Bangladess.

Fyrirtækin hafa einnig verið hvött til þess að samþykkja áætlun verkalýðsfélaga um uppbyggingu og óháðar, reglulegar eftirlitsferðir í verksmiðjur. Áætlunin myndi bæta aðbúnað í fataiðnaði alls landsins og vestrænu fyrirtækin myndu fjármagna uppbygginguna.

Aðeins tvö fyrirtæki hafa hingað til sagst reiðubúin til að undirrita slíka áætlun. Önnur hafa hafnað henni á þeim forsendum að hún sé of dýr fyrir fyrirtækin og að stjórnvöld í landinu eigi að bera ábyrgð á umbótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×