Innlent

"Þetta eru einfaldlega umhverfishryðjuverk“

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Stafirnir eru á gígbotni Hverfjalls og í Grjótagjá í Mývatnssveit. Þeir eru um tíu metra háir í Grjótagjá en 80 sentimetrar í gígbotninum.mynd/vísir.is
Stafirnir eru á gígbotni Hverfjalls og í Grjótagjá í Mývatnssveit. Þeir eru um tíu metra háir í Grjótagjá en 80 sentimetrar í gígbotninum.mynd/vísir.is
„Persónulega held ég að þetta sé keppni í því hver er mesti hálfvitinn. Svona eins og í sjónvarpsþáttunum Jack Ass,“ segir Bergþóra Kristjánsdóttir, sérfræðingur Umhverfisstofnunar á verndarsvæði Mývatns og Laxár, um skemmdarverk sem voru unnin í Grjótagjá og gígbotni Hverfjalls í Mývatnssveit. „Þess vegna rukum við ekki með þetta í fjölmiðla strax vegna þess að umfjöllun er oft það sem svona skemmdarvargar eru að óska eftir.“

Orðin „crater“ (gígur) og „cave“ (hellir) hafa verið máluð stórum stöfum á stöðunum tveimur. Bergþóra segir stafina í „crater“ vera um 10 metra háa, en í Grjótagjá, þar sem orðið „cave“ var málað, eru þeir mun minni, eða um 80 sentimetrar. Hún hefur enga hugmynd um hver á hlut að máli, en segir augljóst að brotaviljinn hafi verið einbeittur.

„Þetta er alveg hræðilegt,“ segir hún. „Mér dettur ekkert í hug. Þetta er bara algjörlega ofar mínum skilningi hvernig einhver getur gert svona. Þetta eru einfaldlega umhverfishryðjuverk.“

Olíumálning var notuð til skemmdarverkanna og mun það því reynast þrautin þyngri að ná henni í burtu. Umhverfisstofnun mun bera kostnað af hreinsunarstarfinu.

Ólafur Þröstur Stefánsson, býflugnabóndi í Mývatnssveit, var á leið ofan í Lofthelli með ferðamenn þegar Fréttablaðið náði tali af honum. Ólafur hefur engar sögur heyrt af því hver gæti staðið að baki verknaðinum.

„Ég hef ekkert heyrt eða neinar upplýsingar fengið um hvað gæti verið þarna á ferðinni annað en fólk sem er að sækjast eftir einhvers konar athygli,“ segir hann. „En þetta er útpælt, það er alveg ljóst.“

Gríðarlegt magn af málningu fór í spellvirkin og líklega hefur einhvers konar sprautubúnaður verið notaður. Ekki er þó hlaupið að því að koma slíkum búnaði upp á fjallið og ofan í gíginn. Lögreglan á Húsavík rannsakar málið og óskar eftir upplýsingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×