Skoðun

Eigum við að bæta lífskjör?

Magnús Orri Schram skrifar
Undanfarin ár hafa landsmenn búið við niðurskurð og auknar álögur til að greiða kostnað hrunsins. Sameiginlegur sjóður landsmanna var rekinn með 216 milljarða halla en er nú kominn í jafnvægi þrátt fyrir 90 milljarða vaxtagreiðslur. Á grunni þessarar vinnu birtast nú himinháir kosningavíxlar.

Hvað á að gera?

Sumir vilja lækka skatta á þá ríkustu. Hækka skatta á tekjulága og lækka skatta á tekjuháa í gegnum afnám þrepaskiptingu tekjuskatts. Aðrir vilja lækka skuldir allra um 20%. Það yrði vissulega gaman í smá stund en svo ekki meir. Þremur til fjórum árum síðar yrðum við á sama stað með skuldir heimilanna enda myndi verðbólgan æða áfram. En ríkissjóður yrði 300 milljörðum fátækari. Við jafnaðarmenn teljum skynsamlegra að greiða niður skuldir, lækka 90 milljarða reikninginn og forgangsraða í þágu velferðar. En best væri að breyta kerfinu.

Hvernig á að gera það?

Við jafnaðarmenn teljum að besta leiðin til að bæta lífskjörin sé að taka upp nýja gjaldgenga mynt. Mynt sem heldur verðgildi sínu. Núna greiða heimilin, fyrirtækin og hið opinbera 150 milljarða á ári fyrir að hafa krónuna. Verðbólga á Íslandi er þrisvar sinnum hærri en innan evrulanda. Vextir á Íslandi eru ríflega tvisvar sinnum hærri en í Evrópu. Ný mynt á Íslandi myndi gera verðtryggingu óþarfa og lækka matarverð. Um leið yrði auðveldara fyrir fyrirtækin að ráðast í fjárfestingar og fjölga störfum. Þannig gætu hið opinbera, heimilin og fyrirtækin notað 150 milljarða krónuskatt í annað.

Og hvenær á að gera það?

Stöðugleikinn er ekki fjarlæg draumsýn. Ný ríkisstjórn gæti lokið viðræðum og efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu á næsta kjörtímabili. Segi þjóðin já, væri nokkrum mánuðum síðar hægt að tengja krónu við evru með svipuðum hætti og Danir gera. Það er því raunsætt að komast í gjaldmiðlasamstarf eftir tvö ár, einhendi flokkarnir sér að ljúka viðræðum. Þá leið vilja jafnaðarmenn fara til að bæta lífskjör á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×