Skoðun

Velferð aldraðra og stöðugleiki

Sigrún Gunnarsdóttir skrifar
Í ágætri grein sinni á dögunum skrifaði Bolli Pétur Bollason (Fréttablaðið 30.3.2013) að velferðin væri í eðli sínu hugsjón sem byggði á gömlum gildum um umhyggju, sjálfræði og ábyrgð. Orð Bolla eru mikilvæg og sagt er að lesa megi þroska hvers samfélags úr því hversu vel er hlúð að hugsjón velferðarinnar.

Við þurfum skarpa sýn á velferð aldraða. Með betri þjónustu við aldraða heima má auka sjálfstæði og lífsgæði og draga úr þörf fyrir dýrari þjónustu. Ný rannsókn sýnir að slík þjónusta er minni hérlendis en í nágrannalöndum og stór hópur eldri borgara er háður daglegri umönnun fjölskyldu. Ófullnægjandi aðstoð í heimahúsum getur leitt til þess að hinn aldraði leiti frekar eftir þjónustu á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Margir á biðlista

Hér á landi eru fleiri hjúkrunarrými fyrir hvern íbúa en almennt tíðkast á Norðurlöndum, samt eru margir á biðlista eftir slíkri þjónustu og leita annarra úrlausna. Skortur á úrræðum fyrir eldri borgara hefur áhrif á bráðaþjónustu, t.d. Landspítala þar sem aldraðir þurfa að þiggja dýra þjónustu sem oft hæfir ekki. Með samstilltri heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða aukast lífsgæði og sóun minnkar.

Björt framtíð leggur áherslu á að bæta þjónustu aldraðra til að tryggja sjálfstæði og persónulega þjónustu og minnka þörf fyrir dvöl á stofnunum. Aðstoð ættingja er mikilvæg en getur ekki verið burðarás velferðarþjónustunnar, miklar kröfur til ættingja geta haft neikvæð áhrif á daglegt líf fjölskyldunnar, jafnvel truflað atvinnuþátttöku og heilsu þeirra sem í hlut eiga.

Mannúð og virðing

Tryggja þarf hagkvæmar leiðir til að leysa skort á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða og kanna möguleika til að nýta betur aðstæður sem eru fyrir hendi. Efla þarf samstarf heilsugæslu, heimahjúkrunar, hjúkrunarheimila og bráðaþjónustu. Nýta þarf tækni enn betur, t.d. fjarlækningar, fjarhjúkrun og símaþjónustu sem eykur sjálfstæði einstaklinga og dregur úr þörf fyrir aðra þjónustu.

Skipulag velferðarþjónustu mótast af umhyggju, mannúð og virðingu fyrir hverjum og einum. Ábyrgð samfélagsins er að tryggja efnahagslegan stöðugleika, fjölbreytt atvinnulíf, réttmætan arð af auðlindum og öguð vinnubrögð þannig að verðmæti skapist sem undirstaða velferðar. Ábyrgð og agi í efnahagsmálum er undirstaða velferðar.




Skoðun

Sjá meira


×