Viðskipti innlent

Hlutafjárútboð TM fer fram í næstu viku

TM er hið minnsta af stóru þremur tryggingafélögunum en var með bestu arðsemina af þeim árið 2012. Fréttablaðið/DANÍEL
TM er hið minnsta af stóru þremur tryggingafélögunum en var með bestu arðsemina af þeim árið 2012. Fréttablaðið/DANÍEL
Tvö af þremur stærstu tryggingafyrirtækjum landsins, TM og VÍS, eru eins og kunnugt er á leið á hlutabréfamarkað. Almennu útboði á bréfum VÍS lauk í gær en bréf í TM verða boðin út í næstu viku, 22. til 24. apríl. Félögin verða fyrstu tryggingafélögin á innlenda hlutabréfamarkaðnum frá hruni.

Í útboði TM stendur til að selja tæplega þriðjungshlut Stoða hf., sem áður hétu FL Group, í félaginu. TM var áður alfarið í eigu Stoða eftir hrun en félagið seldi í júlí í fyrra um 60% hlut í TM til lífeyrissjóða og annarra stofnanafjárfesta. Þá seldu Stoðir um 5% hlut til viðbótar til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) í desember.

Í útboðinu verða allir hlutir seldir á sama verði sem verður á bilinu 17,75 til 20,10 krónur á hlut eftir áhuga fjárfesta. Lægri mörk verðbilsins eru sama verð og LSR greiddi fyrir 5% hlutinn fyrir stuttu en 60% hluturinn sem seldur var í júlí var seldur á verðinu 14,70 krónur á hlut.

Miðað við verðbilið í útboðinu er heildarvirði alls hlutafjár í TM á bilinu 13,5 til 15,3 milljarðar króna. Til samanburðar var hagnaður félagsins ríflega 2,6 milljarðar króna í fyrra en félagið hefur markað sér þá stefnu að greiða 50% hagnaðar hið minnsta út í arð á ári hverju.

Rekstur TM hefur verið tekinn í gegn á síðustu árum en tekjur félagsins koma annars vegar frá vátryggingum og hins vegar frá fjárfestingum. Fyrir hrun var hlutfall tjónakostnaðar á móti iðgjöldum yfirleitt yfir 100% sem þýddi það að vátryggingahluti starfseminnar skilaði tapi. Miklar fjárfestingatekjur gerðu það hins vegar að verkum að félagið hagnaðist.

Eftir hrun hefur TM lagt áherslu á að bæta grunnreksturinn og hefur hlutfall tjónakostnaðar á móti iðgjöldum verið lækkað úr 127,2% árið 2008 í 88,5% í fyrra, sem þykir til fyrirmyndar.

Til marks um þennan viðsnúning hækkaði matsfyrirtækið Standard & Poor‘s matseinkunn TM úr ruslflokki í fjárfestingaflokk fyrr á þessu ári, sem gerir félaginu kleift að sækja fram erlendis þaðan sem 6% tekna þess koma.

Eins og áður sagði fer útboð TM fram í næstu viku en hlutabréf félagsins verða tekin til viðskipta í Kauphöllinni í fyrsta lagi 8. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×