Viðskipti innlent

Helmingaskipti ríkis og einkabanka

Þórður Snær Júlíusson skrifar
Fréttablaðið/GVA
Fréttablaðið/GVA
Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki eru samtals með tæplega helmingsmarkaðshlutdeild á útlánamarkaði. Ríkisstofnanir, lífeyrissjóðir og erlend fjármálafyrirtæki skipta með sér afganginum. Hlutur erlendra aðila, ef skuldir Actavis og Bakkavarar eru ekki taldar með, er tæplega fimmtungur. Þetta kemur fram í tölum um heildarútlán í íslenska bankakerfinu sem teknar hafa verið saman fyrir Markaðinn. Ekki hafa allir þeir aðilar sem samantektin nær til skilað ársreikningum fyrir árið 2012. Því miða tölur annaðhvort við níu mánaðauppgjör eða hálfsársuppgjör þess árs.

Þreföld landsframleiðsla

Alls nema heildarútlán í kerfinu 5.191 milljarði króna, eða um þrefaldri landsframleiðslu. Þegar leiðrétt er fyrir lánum til hinna risastóru Actavis og Bakkavarar, sem í reynd eru erlend fyrirtæki með fjármögnun utan landsteinanna, lækkar þessa tala um 950 milljarða króna.

Af þeim 4.241 milljarði króna sem þá stendur eftir hafa bankastofnanir lánað tæpan helming. Þar er Landsbankinn stærstur með um fimmtán prósent heildarhlutdeild. Lífeyrissjóðir eru með um fimm prósent af markaðnum, Íbúðalánasjóður (ÍLS), Byggðastofnun og ýmsir aðrir smærri opinberir lánasjóðir eru með 22 prósenta hlut, skráð fyrirtækjaskuldabréf eru um þrjú prósent af fjármögnun á markaði og erlendir aðilar eru með 18 prósent markaðshlutdeild. Séu skuldir Actavis og Bakkavarar taldar með hækkar hlutfall skulda í eigu erlendra banka upp í fjörutíu prósent.

Ríkisfyrirtæki fyrirferðarmikil

Landsbankinn er sem kunnugt er að stærstum hluta í eigu íslenska ríkisins, sem á 81,33 prósent í honum. Þegar skilyrt skuldabréf hans mun verða gefið út í lok þessa mánaðar mun þrotabú gamla Landsbankans skila þeim hlut sem það heldur á, 18,67 prósent, að nánast öllu leyti. Eftir það mun ríkið eiga allt að 98 prósenta hlut í bankanum og starfsmenn hans fá allt að tveggja prósenta hlut sem á að mynda stofn að nýju kaupaukakerfi þeirra.

Þegar markaðshlutdeild ríkisbankans er lögð saman við hlutdeild annarra lánastofnana í opinberri eigu kemur í ljós að þær eru með 39 prósent af lánamarkaðinum.

Ríkið risi á smásölumarkaði

Þegar horft er einungis á lán til einstaklinga, svokallaðan smásölumarkað (e. retail) kemur í ljós að bankar eru með 37 prósenta markaðshlutdeild, ÍLS, Byggðastofnun og aðrir opinberir lánasjóðir með 41 prósent og LÍN og lífeyrissjóðir landsins með hvort sinn ellefu prósenta hlut. Heildarumfang markaðarins, sem inniheldur meðal annars öll veitt húsnæðislán, er 1.641 milljarður króna, eða tæp ein landsframleiðsla.

Af þeirri tölu lánuðu ríkisstofnanir og Landsbankinn út 1.057 milljarða króna, eða 64 prósent allra lána til einstaklinga. Stærstur hluti þeirra lána eru vitanlega húsnæðislán ÍLS og námslán sem LÍN veitir.

Ráðandi á fyrirtækjamarkaði

Hinn ráðandi hlutinn í lánageiranum eru útlán til fyrirtækja, ríkis, sveitarfélaga, eignarhaldsfélaga og „annarra". Þessi markaður er umtalsvert stærri en einstaklingsmarkaðurinn og eru heildarútlán á honum áætluð um 2.600 milljarðar króna.

Þar eru innlendar bankastofnanir ráðandi með 55 prósent markaðshlutdeild. Stóru bankarnir þrír, Landsbanki, Arion banki og Íslandsbanki eru með nánast alla þá sneið. Erlendir aðilar koma þar næstir með um 28 prósent lána og ÍLS og Byggðastofnun eru með um níu prósent. Lífeyrissjóðir og skráð fyrirtækjaskuldabréf eru með minna.

Ef ríkisstofnanir sem lána til fyrirtækja eru lagðar saman við hlutdeild Landsbankans á markaðnum kemur í ljós að saman eru þessir aðilar með um 23 prósent markaðarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×