Gagnrýni

Óhugnaður í Kassanum

Ardís Þórarinsdóttir skrifar
Karma fyrir fugla "Hún verður að vera góð ef hún á að fá að vaða uppi.“
Karma fyrir fugla "Hún verður að vera góð ef hún á að fá að vaða uppi.“
Leikhús. Karma fyrir fugla. Leikstjóri: Kristín Jóhannesdóttir. Höfundar: Kari Ósk Grétudóttir, Kristín Eiríksdóttir. Leikmynd og búningar: Anna Rún Tryggvadóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Leikarar: Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Hilmir Jensson, Kristbjörg Kjeld, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Þorsteinn Bachmann og Herdís Þorvaldsdóttir. Kassinn. "Maður verður alla helgina að jafna sig á þessu,“ var komið fram á varirnar á mér eftir frumsýninguna á Karma fyrir fugla eftir Kristínu Eiríksdóttur og Kari Ósk Grétudóttur. En um leið og hugsunin hafði runnið í gegnum hugann vonaði ég að hún væri misskilningur. Vonandi tekur miklu lengri tíma en eina helgi að jafna sig á þessari sýningu, vonandi eimir eftir af henni varanlega. Karma fyrir fugla er pólitískt leikhús. Það er leikrit sem tekst á við samfélagsmein, leikrit með markmið, innlegg í yfirstandandi umræðu um stöðu konunnar á heimsvísu. Sögunni á sviðinu vindur fram á Íslandi en nokkur atriði eru aðeins öðruvísi en við eigum að venjast hér á landi. Þannig er það sett í samhengi hvað hlutir eins og mansal eru sammannlegt vandamál, ekki bara eitthvað úti í heimi sem einhver annar þarf að velta fyrir sér. Verkið er í dæmisagnastíl, svo boðskapurinn á sviðinu vegur nokkuð þyngra en sagan. Karma fyrir fugla er fremur brotakennt stykki og helst þyrfti annað áhorf til þess að fá almennilegan botn í það allt saman. En flest þurfum við að láta okkur duga að sjá brotin falla smám saman í rammann, ekki fyllilega, ekki þannig að allt skiljist, en þó þannig að heildarmyndin verður smám saman stærri en ramminn sjálfur. Það mæðir mikið á Þórunni Örnu Kristjánsdóttir, sem er á sviðinu svo til allan tímann í hlutverki Elsu, aðalpersónu verksins, en hún veldur því af næmni. Maríanna Clara Lúthersdóttir fór einnig vel með hlutverk móðurinnar, fulltrúa þeirra kvenna sem gangast inn á gildandi kerfi og taka þátt í að viðhalda því af því það er þægilegast. Einnig verður að nefna Kristbjörgu Kjeld, sem var mögnuð í hlutverki sögumanns. Örvæntingarfullur hlátur aldraðrar gleðikonu hljómar lengi í eyrum áhorfenda. Hilmir Jensson var verulega óhugnanlegur í hlutverki ungu karlmannanna. Þorsteinn Bachmann, sem faðir Elsu, gerði smáborgarann hættulegan. Er þá ótalin Ólafía Hrönn Jónsdóttir í hlutverki útlifaðrar vændiskonu: Augu hennar voru dauð. Herdís Þorvaldsdóttir birtist svo í lok sýningar í litlu en mikilvægu hlutverki sem hún sinnti af alúð eins og vænta mátti. Leikmynd Önnu Rúnar Tryggvadóttur var heillandi, næstum því líkamleg, og þjónaði verkinu vel. Lýsing Halldórs Arnar Óskarssonar var svo listileg að hún virtist nánast hluti leikmyndarinnar. Búningar voru sömuleiðis vel hugsaðir. Leikstjórinn Kristín Jóhannsdóttir hefur ekki fengið auðvelt verkefni með þessu leikverki, en hún leysir það vel af hendi. Sviðsetningin er kraftmikil, grípandi og áleitin, með sterku myndmáli. Lokamynd verksins var sérstaklega óhugnanleg, yfirþyrmandi og ljót, þar sem sýnd var tímabundin huggun í botnlausu vonleysi. Þetta er ekkert þægileg sýning. Þeir sem vilja fara í leikhús til að hlæja, skemmta sér og gleyma ættu sennilega ekkert að eltast við hana. En það var engin tilviljun að allir frumsýningargestir Kassans risu á fætur við sýningarlok á föstudaginn. Það er svo magnað að fara í leikhús og finna þar eitthvað sem skiptir máli. Niðurstaða: Áleitin sýning þar sem ótal hliðar sama vanda eru skoðaðar, vel leikin og kraftmikil.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×