Skoðun

Fer Landsnet að eigin tillögum?

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar
Nefnd um lagningu raflína í jörð hefur skilað skýrslu sinni með nokkrum megintillögum sem nefndarfólk var einhuga um, auk sértillagna nokkurra nefndarmanna. Í fréttum Ríkisútvarpsins var því slegið upp að engin niðurstaða hefði náðst hjá nefndinni. Það er ekki rétt, og ráðherra er í lófa lagið að vinna hratt og örugglega úr þeim tillögum sem þarna koma fram. Einnig er hér bent á ítarlegar tillögur Landverndar og fulltrúa landeigenda í viðauka við skýrslu nefndarinnar.Ein sameiginleg tillaga nefndarinnar gerir ráð fyrir að nú þegar verði ákveðin viðmið og grundvallarreglur höfð til hliðsjónar við ákvarðanatöku vegna framkvæmda í flutningskerfinu. Í þessu felst að á ákveðnum svæðum skal flutningsfyrirtæki ávallt bera saman áhrif þess að leggja loftlínu eða jarðstreng þrátt fyrir að við samanburð á kostnaði komi í ljós að jarðstrengur sé umtalsvert dýrari en loftlína. Þessi svæði eru m.a. náttúruverndarsvæði og svæði sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum, við flugvelli þar sem sýnt er að loftlína getur haft áhrif á flugöryggi og svæði þar sem veðurálag er mikið og jarðstrengur gæti aukið afhendingaröryggi. Þá leggur nefndin til að leggja skuli jarðstrengi svo sem kostur er meðfram núliggjandi vegum.Fulltrúi Landsnets stóð að þessari tillögu og því ekkert eðlilegra en að fyrirtækið fari nú þegar að vinna eftir henni. Sveitarstjórnir á svæðum þar sem framkvæmdir eru komnar á leyfisveitingastig, t.d. við Suðurnesjalínu 2 og Blöndulínu 3, geta einnig litið til þessara viðmiða og grundvallarreglna við ákvarðanatöku sína. Í ljósi niðurstöðu nefndarinnar, sem Landsnet stóð að, ætti fyrirtækið að vera fylgjandi því að taka til endurskoðunar afstöðu sína gagnvart jarðstrengslögn á slíkum viðmiðunarsvæðum á línuleið þessara tveggja lína, m.a. á náttúruverndarsvæðum, við flugvelli og þar sem veðurálag er mikið. Krafa Landsnets um eignarnám á landi við fyrirhugaða Suðurnesjalínu 2 á Reykjanesskaga vekur því óneitanlega ugg í brjósti, sama dag og tillögur nefndarinnar eru gerðar opinberar.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.