Viðskipti innlent

Íslendingar eru velkomnir til Grænlands

Þórður Snær Júlíusson skrifar
Grænlensk-íslenska viðskiptaráðið var stofnað í október 2012. Brian Bruus Pedersen situr í stjórn þess og Sigurður Skagfjörð Sigurðsson er stjórnarformaður. 
mynd/Kristín Hjálmtýsdóttir
Grænlensk-íslenska viðskiptaráðið var stofnað í október 2012. Brian Bruus Pedersen situr í stjórn þess og Sigurður Skagfjörð Sigurðsson er stjórnarformaður. mynd/Kristín Hjálmtýsdóttir
Töluverð tækifæri eru fyrir íslensk fyrirtæki á Grænlandi og mikill vilji er til staðar hjá grænlenskum fyrirtækjum að vinna með þeim íslensku. Þetta segir Brian Bruus Pedersen, formaður Samtaka atvinnulífsins á Grænlandi og stjórnarmaður í Grænlensk-íslenska viðskiptaráðinu.

Samtök Pedersen voru á meðal þeirra aðila sem stóðu að stórri ráðstefnu, „Future Greenland 2013“, sem fór fram í byrjun febrúarmánaðar. Á ráðstefnunni voru staddir fulltrúar frá fjölmörgum íslenskum fyrirtækjum sem annaðhvort eru þegar með umsvif á Grænlandi eða eru að kanna möguleikann á því að hefja starfsemi þar.

Líkt og greint verður ítarlega frá aftar í Markaðnum eru mikil uppgangstækifæri í Grænlandi. Pedersen segir íslensk fyrirtæki vel geta tekið þátt í þeim verkefnum sem fram undan eru. „Það þarf fullt af fyrirtækjum frá Íslandi, Skandinavíu og víðar til að koma hingað og keppa um þá samninga sem eru í boði. Okkur skortir bæði fjöldann og getuna til að geta gert þetta allt saman sjálf. Við þurfum á þessum fyrirtækjum að halda en ætlumst að sama skapi til þess að þau leggi sitt af mörkum til langtímavaxtar Grænlands.“

Að sögn Pedersen eru íslensku fyrirtækin sem nú þegar starfa á Grænlandi, til dæmis Ístak og Flugfélag Íslands, alvöru leikendur í grænlensku viðskiptalífi. „Grænlensk fyrirtæki vilja vinna með þeim íslensku.“

Miklar nýtanlegar náttúruauðlindir eru á Grænlandi, sérstaklega olíulindir og námuvinnslutækifæri. Pedersen segir ýmsar hindranir enn vera í vegi fyrir að nýting margra þeirra tækifæra geti hafist en að sérfræðingar fullyrði að þær verði yfirstignar á næstu árum.

Spurður hvort það sé pólitísk samstaða um að feta þann veg að ráðast í þessi stóru verkefni segist hann telja svo vera.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×