„ESB er orðið hundleitt á EES, finnst mér stundum, og orðið hundleitt á tvíhliðasamningunum við Sviss. Þess vegna hefur ESB sagt, með verkum sínum sem rakin eru í skýrslunni, að það hefur lítinn vilja til að leggja sig mikið fram til að búa til sérstöðu fyrir þessi ríki.“
Þetta sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra á þingi í gær þar sem rætt var um árlega skýrslu ráðherra um utanríkis- og alþjóðamál.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að skilningur ESB á málflutningi og óskum EFTA-ríkjanna á vettvangi EES-samningsins virðist hafa farið minnkandi síðustu ár og samskipti hafa gerst nokkuð stirð og formleg. Þá hefur Íslandi reynst erfitt að fá viðurkennda sérstöðu í ýmsum málum.
„Það liggur alveg ljóst fyrir að það hefur dregið úr viljanum til að veita undanþágur innan EES,“ sagði Össur í gær og bætti því við að það væri skynjun Íslendinga að stofnanaminni ESB gagnvart EES væri að þverra og minni skilningur en áður gagnvart sérstöðu Íslands.
Í kaflanum um mál sem tengjast EES segir að stífni ESB hafi meðal annars komið fram með þeim hætti að sambandið hafi „staðfastlega hafnað aðlögunartextum sem Ísland hefur óskað eftir“.
