Erlent

Brenndu fornar bækur í Timbuktu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Malískir hermenn Komnir á Gao-flugvöll, skammt austur af Timbuktu.	
Fréttablaðið/AP
Malískir hermenn Komnir á Gao-flugvöll, skammt austur af Timbuktu. Fréttablaðið/AP
Herskáir íslamistar, tengdir samtökunum al-Kaída, hafa undanfarna tíu mánuði beitt af mikilli hörku strangtrúartúlkun sinni á lögum íslams í norðurhluta Malí, sem þeir náðu á sitt vald á síðasta ári.

Þeir hafa eyðilagt fornar byggingar, refsað konum með svipuhöggum ef þær báru ekki andlitsblæjur og nú síðast kveikt í bókasafni í hinni sögufrægu borg Timbuktu. Þar hafa verið geymd merk fornrit, sum frá tólftu öld.

„Þeir kveiktu í öllum mikilvægustu fornritunum. Fornum bókum um landafræði og vísindi. Þetta er saga borgarinnar Timbuktu og íbúa hennar," segir Ousmane Halle borgarstjóri. „Það er virkilega skelfilegt að þetta skuli hafa gerst."

Hluta handritanna hafði reyndar verið komið undan áður en íslamistarnir hertóku borgina, þannig að ekki er vitað hve stór hluti þeirra eyðilagðist í eldinum.

Eldinn í bókasafninu kveiktu þeir rétt áður en þeir flúðu borgina í gær, en franska hernum hefur tekist að hrekja þá burt frá Timbuktu.

Íslamistarnir hafa flúið út í eyðimörkina í kring, en franski og malíski herinn bjuggu sig í gær undir að halda innreið sína í borgina.

Íslamistarnir náðu borgunum Timbuktu, Gao og Kidal á sitt vald í mars á síðasta ári, stuttu eftir að herforingjar í Malí gerðu þar stjórnarbyltingu. Herforingjarnir sögðu þá gera byltingu vegna óánægju með það hve illa stjórnin hefði búið að hernum með þeim afleiðingum að hann hefði ekki getað varist uppreisn íslamista.

Íslamistarnir hafa nú verið hraktir burt frá bæði Gao og Timbuktu en halda enn borginni Kidal, sem er höfuðstaður héraðsins.

Franski herinn náði Gao á sitt vald á laugardag. Strax aðfaranótt sunnudag náðu Frakkar flugvellinum í Timbuktu á sitt vald og síðan öllum umferðarleiðum til og frá borginni.

Eyðileggingarherferð íslamista í Malí minnir mjög á skemmdarverk sem talibanar í Afganistan unnu á fornminjum þar í landi fyrir rúmum áratug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×