Skoðun

Tölum saman um betri hverfi

Jón Gnarr skrifar
Í fyrra óskaði Reykjavíkurborg eftir hugmyndum frá borgarbúum að smærri verkefnum í hverfum borgarinnar. Borgarbúar tóku vel við sér og komu með nærri 400 góðar hugmyndir. Embættismenn og hverfaráð Reykjavíkurborgar fóru síðan yfir hugmyndirnar og var kosið á milli 182 hugmynda í rafrænum íbúakosningum. Þar af kusu borgarbúar 124 hugmyndir sem komu til framkvæmda í fyrrasumar og haust. Hafa nú yfir 100 verkefni verið framkvæmd. Aðeins lítill hluti bíður vors.

Þetta tilraunaverkefni tókst afar vel og ég þori að fullyrða að mikill meirihluti þessara verkefna er í anda þeirra hugmynda sem íbúar settu fram. Kjörsókn var um 8,1%, í sumum hverfum um og yfir 10 prósent. Samt má enn gera betur.

Óánægjuraddir heyrðust varðandi einstök verkefni og snerust þær m.a. um að borgin framkvæmdi hugmyndirnar eftir sínu höfði en ekki íbúanna. Þá kom fram sú gagnrýni að dýrari verkefni vantaði á hugmyndalistana sem kosið var um. Í ár vil ég sjá enn fleiri borgarbúa taka þátt og við þurfum einnig að tryggja virkara samráð um framkvæmdirnar.

Í dag verður opnað fyrir góðar hugmyndir í verkefnið Betri hverfi á samráðsvefnum Betri Reykjavík. Þar geta Reykvíkingar sett inn nýjar hugmyndir, skoðað og stutt við hugmyndir annarra. Hægt verður að setja inn hugmyndir til 15. febrúar nk. Rafrænar íbúakosningar um efstu hugmyndir verða síðan haldnar dagana 14.-19. mars. Reykjavíkurborg leggur aftur 300 milljónir í svokallaða hverfapotta á þessu ári til að koma þeim verkefnum í framkvæmd sem kosin verða.

Á næstu vikum mun ég funda með íbúum í hverfum Reykjavíkur og fara yfir verkefni síðasta árs og óska eftir uppbyggilegum hugmyndum. Þar mun íbúum gefast kostur á því að bjóða fram þjónustu sína varðandi eftirfylgni verkefna. Með því viljum við tryggja að verkefnin sem koma til framkvæmda verði í anda þeirra hugmynda sem íbúar setja fram. Ég hlakka til og hvet alla Reykvíkinga til að mæta á fundina. Reykjavík er frábær borg en við getum gert hana enn betri.




Skoðun

Skoðun

Um dánaraðstoð

Steinunn Þórðardóttir,Oddur Steinarsson,Thelma Kristinsdóttir,Katrín Ragna Kemp,Magdalena Ásgeirsdóttir,Margrét Ólafía Tómasdóttir,Ragnar Freyr Ingvarsson,Teitur Ari Theodórsson,Theódór Skúli Sigurðsson skrifar

Skoðun

Hún

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×