Viðskipti innlent

Tekjur Eimskips jukust milli ára á þriðja ársfjórðungi

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Flutningageta Eimskips er sögð hafa aukist um 7,7 prósent með breytingum sem kynntar voru á siglingaáætlun félagsins í mars.
Flutningageta Eimskips er sögð hafa aukist um 7,7 prósent með breytingum sem kynntar voru á siglingaáætlun félagsins í mars. Fréttablaðið/GVA
Hagnaður Eimskips dregst saman í nýbirtu árshlutauppgjöri. Á þriðja ársfjórðungi hagnaðist félagið um rúmar fimm milljónir evra, eða sem svarar um 834 milljónum íslenskra króna, 11,1 prósenti minna en á sama tíma í fyrra.

Fyrstu níu mánuði ársins nam hagnaður félagsins rúmum 9,6 milljónum evra (tæplega 1,6 milljörðum króna) en var fyrstu níu mánuði 2012 13,7 milljónir evra (tæplega 2,3 milljarðar króna). Samdrátturinn er 29,7 prósent.

Í umfjöllun Greiningar Íslandsbanka er uppgjörið sagt í meðallagi gott og fátt koma á óvart.

„Ánægjulegt er þó að sjá EBITDA framlegð fjórðungsins hækka frá sama tímabili í fyrra,“ segir þar en hækkun milli ára nemur þar 5,2 prósentum.

„Tölur fyrir fyrstu 9 mánuði ársins sýna þó að EBITDA og EBIT framlegð er að lækka, bæði í krónum talið og í hlutfalli af tekjum.“

Í tilkynningu Eimskips til Kauphallar er haft eftir Gylfa Sigfússyni forstjóra félagsins að niðurstöður þriðja ársfjórðungs séu í takt við væntingar félagsins.

Vörumagn í flutningum hafi aukist milli ára og sem sé viðsnúningur frá því sem verið hafi á fyrri helmingi ársins. Þá hafi tekjur félagsins á þriðja ársfjórðungi aukist um 0,8 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×