Erlent

Gíbraltardeilan vakin upp úr dvala

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Gíbraltarskagi
Gíbraltarskagi nordicphotos/AFP
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hefur verið sakaður um að blása upp deilur við Breta um Gíbraltarskagann, í von um að Spánverjar fái þá um eitthvað annað að hugsa en spillingarmálin, sem hann er flæktur í, og efnahagserfiðleikana, sem hann ræður illa við.

Deila Spánverja og Breta er hins vegar ævaforn og skýtur upp kollinum með reglulegu millibili. Að þessu sinni snúast deilurnar um manngert rif, sem hinir bresku ríkisborgar á Skaganum hafa sett niður við höfnina í Gíbraltar.

Spænskir sjómenn hafa kvartað hástöfum um að rifið hindri för þeirra og torveldi fiskveiðar.

Spænsk stjórnvöld hafa gripið til þess ráðs að herða landamæraeftirlit, með miklum töfum meðal annars fyrir ferðamenn sem ætla sér að skreppa út á skagann. Íbúar þar hafa miklar tekjur af ferðamönnum.

Gíbraltarskagi er örlítill skagi út í Miðjarðarhafið, ekki nema sjö ferkílómetrar að stærð. Hann hefur tilheyrt Bretum síðan í spænska erfðastríðinu í byrjun 18. aldar, þegar Bretar hertóku skagann og héldu honum samkvæmt Utrecht-sáttmálanum 1713.

Spánverjar hafa hins vegar lengi gert tilkall til skagans, og segja það brot gegn alþjóðalögum að annað ríki hafi yfirráð yfir hluta Spánar.

Íbúar skagans hafa oftar en einu sinni í kosningum lýst yfir vilja sínum til að tilheyra áfram Bretlandi. Spánverjar hafa hins vegar boðið þeim að verða sjálfstjórnarhérað innan spænska ríkisins.

David Cameron, forsætisráðherra Breta, ræddi við Rajoy í síma í síðustu viku, sagði viðræðurnar hafa verið uppbyggilegar en tilefnið hafi verið alvarlegt. Cameron segir að það yrði fordæmalaust, ef Bretar neyddust nú til að taka ákvörðun um að leita til dómstóla. Það verði þó ekki gert nema að vel athuguðu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×