Af þeim bókum sem getið er í Bókatíðindum Félags íslenskra bókaútgefenda fyrir þessi jól séu 441 bók prentuð á Íslandi, fimtán fleiri en í fyrra. En sem hlutfall af heild dregst hlutfallið lítillega saman milli ára, er 62,6% í ár en var 63,1% fyrir jólin 2012.
Heildarfjöldi prentaðra bókatitla er 704 í Bókatíðindunum í ár en var 675 árið 2012.
Skoðað var hvert hlutfall prentunar innanlands og erlendis er eftir flokkum. Þar kemur fram að stór hluti barnabóka er prentaður erlendis en það er m.a. vegna þess að samprent er algengt í útgáfu barnabóka þar sem prentað er sameiginlega fyrir mörg lönd.
Hér er samantekt úr könnun Bókasambands Íslands:
- Fræðibækur, bækur almenns efnis og listir eru alls 204; 128 (63%) eru prentaðar á Íslandi og 76 (37%) prentaðar erlendis.
- Skáldverk, íslensk og þýdd, eru 196; 180 (92%) prentuð á Íslandi og 16 (8%) prentuð erlendis.
- Saga, ættfræði, ævisögur, handbækur, matur og drykkur eru alls 129; 73 (57%) prentaðar á Íslandi og 56 (43%) prentaðar erlendis.
- Barnabækur, íslenskar og þýddar, eru alls 175; 60 (34%) prentaðar á Íslandi og 115 (66%) prentaðar erlendis.
