Erlent

Tókst að klóna mennskan fósturvísi

Jóhannes Stefánsson skrifar
Læknavísindunum fer stöðugt fram, en ýmis siðferðisleg vandamál vekja spurningar
Læknavísindunum fer stöðugt fram, en ýmis siðferðisleg vandamál vekja spurningar Mynd/ Getty

Bandarískum vísindamönnum hefur tekist að búa til mennska fósturvísa með klónun. Klónuðu fósturvísarnir voru notaðir til framleiðslu stofnfruma, en þær má nota til að búa til hjartavef, bein, heilavef eða hvaða frumu mannslíkamans sem er.

Klónunin átti sér stað með sömu aðferðum og notaðar voru til að klóna kindina Dolly samkvæmt rannsókninni.

Mikil tækifæri en einnig siðferðisleg álitamál

Vísindamennirnir segja þó að aðferðin sé ekki eins álitleg til þess að útvega stofnfrumur og aðrar þekktari aðferðir, bæði vegna kostnaðar og af siðferðislegum ástæðum. Andstæðingar segja tilraunir á mennskum fósturvísum siðferðislega rangar og hafa farið fram á að þær verði bannaðar.

Stofnfrumurannsóknir fela í sér mikla möguleika fyrir læknavísindin, enda verður þegar fram líða stundir kannski hægt að laga hjarta sem hefur skemmst við hjartaáfall eða mænu sem hefur farið í sundur með nýjum vef úr stofnfrumum.

Þegar hafa verið gerðar prufanir með stofnfrumur úr gjafafósturvísum til að veita fólki sjón að nýju, en vandinn er sá að líkami stofnfrumuþegans á það til að hafna hinum aðfluttu frumum. Þetta er ekki vandamál þegar klónun er beitt.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fréttir berast af klónun mennskra fósturvísa, en hinn suður-kóreski vísindamaður Hwang Woo-suk hélt því fram að honum hefði tekist klónunin. Það kom svo á daginn að hann hafði falsað niðurstöður sínar.

Ítarlega er fjallað um málið á vef BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×