Viðskipti innlent

Meirihluti hlutafjár í VÍS settur á markað

Stjórn Klakka, það er þrotabús Exista, hefur ákveðið að bjóða a.m.k. 60% af hlutafé VÍS til sölu í útboði sem áætlað er að fari fram í apríl og hefur stjórn VÍS lagt inn umsókn til Kauphallar um að hlutabréf félagsins verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar.

Fjárfestingabankasvið Arion banka hefur umsjón með fyrirhugaðri sölu og ferli því sem framundan er.

Í tilkynningu segir að VÍS sé sterkt og öflugt félag og áhugaverður fjárfestingakostur, enda um að ræða stærsta vátryggingafélag landsins sem er með ríflega þriðjungs markaðshlutdeild.

"Líkt og fram kemur í ársreikningi VÍS vegna ársins 2012 námu iðgjöld félagsins um 16,5 milljörðum kr árið 2012 og eru þau mjög dreifð bæði milli vátryggingagreina og viðskiptavina en enginn af rúmlega 80 þúsund viðskiptavina félagsins stendur á bak við meira en 1% af iðgjöldum þess," segir í tilkynningunni.

"Verðmæti eigna félagsins nam um 43,5 milljörðum kr. í lok árs 2012 og eigið fé þess var um 14,5 milljarðar kr. Rekstur félagsins gekk vel árið 2012 og var rúmlega 3 milljarða kr. hagnaður af rekstri þess."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×