Viðskipti innlent

Síminn lækkar verð á símtölum innan ESB og EES

Um næstu mánaðamót lækkar verð viðskiptavina Símans, sem reika á kerfum fjarskiptafyrirtækja innan landa Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins um 22 prósent, þegar þeir hringja heim. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Evrópusambandið hefur unnið að því síðustu ár að lækka lúkningargjöld á milli fjarskiptafyrirtækja innan ESB og EES svæðisins. Eins hefur verið sett þak á það hvað fjarskiptafyrirtæki mega gjaldfæra fyrir þessa þjónustu,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans í tilkynningunni og vísar til gjaldanna sem fjarskiptafyrirtæki greiða sín á milli fyrir aðgang símtala milli kerfa þeirra.

„Þetta eru frábærar fréttir fyrir viðskiptavini og hefur óveruleg áhrif á afkomu Símans, þar sem gjöld annarra fjarskiptafyrirtækja hafa lækkað í samræmi við okkar. Allir njóta því ágóðans, því nú getum við talað lengur fyrir sama pening og áður og skapað enn sterkara samband okkar á milli.“

Mest lækkar gagnaflutningurinn, eða um 38 prósent. Mestu munar þó um kostnað þegar hringt er í Króatíu. „Þar sem Króatía gengur inn í Evrópusambandið í júlí lækkar kostnaðurinn þar mun meira,“ segir Gunnhildur. Þar munar mestu um verð á gagnaflutningi en MB í GPRS fer úr 1.990 krónum í 88,5 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×