Viðskipti innlent

Innlendar matvörur hækkuðu verulega í maí án ástæðu

Innlendar matvörur hækkuðu verulega í maí en innfluttar lækkuðu lítillega á móti. Ekki er hægt að sjá augljósar skýringar á því að innlend matvæli hækka. Hvað þær innfluttu varðar er enn langt í að lækkun þeirra sé í samræmi við styrkingu krónunnar frá áramótum.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem rýnt er í nýjustu verðbólgumælingu Hagstofunnar. Þar segir að athyglisvert sé að skoða matvörulið vísitölu neysluverðs. Liðurinn stóð nánast í stað í maí, en þar vegast á ólík áhrif af innfluttum matvörum annars vegar, og innlendum hins vegar.

Innfluttar mat- og drykkjarvörur lækkuðu þannig um 0,5% í maímánuði, þótt reyndar sé rétt að halda til haga að í þeim lið hefur styrking krónu frá febrúarmánuði enn ekki skilað sér að fullu. Ýmsar innlendar matvörur hækkuðu hins vegar verulega í verði í maímánuði. Má þar nefna að fiskur hækkaði um 1,7% í verði, kjöt um 1,1%, egg um 1,5%, ostar um 0,9% og smjör um 1,3%.

Í heild hækkuðu búvörur án grænmetis um 0,8% í maí, og hafa þær frá áramótum hækkað um 2,8%. Erfitt er að átta sig á hvað skýrir þessa hækkun, sér í lagi þegar haft er í huga að innflutt aðföng í landbúnaði ættu að hafa lækkað í verði samfara styrkingu krónu. Á heildina litið hefur matvara hækkað í verði um 2,9% það sem af er ári, og skýtur það skökku við í ljósi styrkingar krónu og almennrar lækkunar á verði landbúnaðarvara erlendis.



Innfluttar vörur lækka ekki eins og ætti að vera

Á hinn bóginn kemur nokkuð á óvart að ýmsar innfluttar vörur hafa ýmist lækkað lítið í verði eða jafnvel hækkað, þrátt fyrir 7-8% styrkingu krónu frá miðjum febrúar fram í miðjan maí. Má þar nefna föt og skó, en sá liður er á heildina litið óbreyttur frá áramótum þrátt fyrir styrkinguna. Verð á fötum og skóm hækkaði raunar um 0,6% í maímánuði. Svipaða sögu má segja af liðum á borð við húsgögn og heimilisbúnað, og það sem í daglegu tali er kallað græjur, þ.e. tölvur, sjónvörp, hljómtæki og slíkt. Virðist því sem víða sé enn talsvert svigrúm til þess að miðla lækkun á innflutningsverði áfram út í smásöluverð á innfluttum vörum.

Verðskrár hótela hækka um 61%

Annað sem vekur athygli í tölum Hagstofunnar er geysimikil hækkun á þjónustu hótela og gistiheimila. Vissulega fer nú í hönd aðal ferðamannatíminn hér á landi og undanfarin ár hefur þessi liður ávallt hækkað verulega á fyrri hluta ársins. Hefur hækkunin síðustu ár verið á bilinu 18% - 35%. Hækkunin nú nemur hins vegar 61% frá áramótum, og má spyrja sig hvort ýmsir í þessum geira séu ekki farnir að seilast nokkuð langt í að nýta sér aukna eftirspurn erlendra ferðamanna eftir gistingu hér á landi til hækkunar á verði. Má segja að raungengið, eins og það blasir við erlendum ferðamönnum, hækki nú mun hraðar en ef horft er til almennra neysluútgjalda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×