Skoðun

Foreldrar og skemmtanahald

Björn Rúnar Egilsson skrifar
Heimili og skóli – landssamtök foreldra leggja sig fram við að vera í góðum tengslum við foreldra á öllum skólastigum og veita þeim ráðgjöf, fræðslu og vettvang til samráðs og samstarfs. Nýverið héldu samtökin fund fyrir foreldra framhaldsskólanema í þeim tilgangi að þeir gætu deilt hollráðum og reynslu sín á milli. Þegar framhaldsskólana ber á góma beinist umræðan iðulega að forvarnarmálum og hvort foreldrar ættu að hafa eitthvað að segja um skemmtanahald barna sinna í tengslum við framhaldsskólaböllin.

Hefðin fyrir því að foreldrar hafi beina aðkomu að slíku skemmtanahaldi er hvorki rík né löng hér á landi og þykir sumum tilhugsunin um inngrip af þeirra hálfu vera framandi eða jafnvel óviðeigandi. Þrátt fyrir það er foreldrastarf á framhaldsskólastigi að sækja í sig veðrið og í sumum skólum hafa foreldrar boðið upp á margvíslega fræðslufundi og tekið sig saman og staðið fyrir svokallaðri foreldragæslu í tengslum við stærstu viðburði félagslífsins á hverju skólaári, eins og busaballið og árshátíðir. Stjórnarmeðlimir í foreldraráði Menntaskólans í Reykjavík hafa staðið vaktina undanfarið og aðstoðað skemmtanahaldara, forvarnarfulltrúa og kennara sem koma að gæslunni við að allt fari sómasamlega fram.

Viðbrigðin mikil

Aðspurðir segja fulltrúar foreldraráðsins að viðbrigðin séu mikil fyrir nýnemana að hefja skólagöngu í menntaskóla; þeir komi úr vernduðu umhverfi grunnskólans og skyndilega standi þeir frammi fyrir auknu frelsi sem og freistingum. Hefð er fyrir því í skólanum að 6. bekkingar (lokaársnemar) bjóði 3. bekkingum (nýnemum) í partý fyrir busaballið þar sem áfengar veigar eru gjarnan á boðstólum.

Foreldraráðið hefur í samstarfi við skólayfirvöld haft samband við foreldra og bent þeim á ábyrgð sína – að leyfa ekki eftirlitslaus partý þar sem ungmennum undir sjálfræðisaldri er boðið upp á vín. Þegar á ballið sjálft er komið felst foreldragæslan í því að taka á móti unglingunum þegar þeir koma og greiða úr því öngþveiti sem þá vill gjarnan myndast auk þess að sjá til þess að þeir fari ekki með áfengi inn á ballið. Þeim sem fyrir sakir ölvunar eru ófærir um að fara inn er komið í skjól svo þeir fari sér ekki að voða og samband er haft við foreldra. Foreldrarnir sem taka þátt i vaktinni eru síðan til taks á meðan ballinu stendur og hægt er að leita til þeirra ef eitthvað bjátar á.

Fulltrúar foreldraráðsins segja að almennt sé góð samstaða um verkefnið og að þar sé náið samráð við skólastjórnendur og forvarnarfulltrúa í lykilhlutverki – annars væri þetta óvinnandi verk. Auk þess eru þeir sannfærðir um að aðkoma þeirra og annarra sem að gæslunni koma skipti máli; þeir séu að þessu til öryggis og hagsbóta fyrir börnin sín og að þeir sem tengiliðir við foreldrasamfélagið í heild sinni geti gefið foreldrum innsýn í veruleika ungs fólks sem þeir gera sér gjarnan ekki fyllilega grein fyrir.




Skoðun

Sjá meira


×