Skoðun

Hlutfall kirkju í ríkisrekstri

Valgarður Guðjónsson skrifar
Það er varla hægt að líta í fjölmiðil þessa dagana án þess að rekast á kvartanir forsvarsmanna ríkisrekinnar kirkju yfir því hversu miklum niðurskurði reksturinn hafi þurft að sæta, meira en aðrir – og hversu bág fjárhagsstaða hennar sé.



En er þetta rétt? Það er eflaust hægt að nálgast þetta á ýmsa vegu. Ég stend utan þjóðkirkjunnar og því er eðlilegast fyrir mig að líta á hversu mikið ég er að greiða fyrir þessa liði á fjárlögum sem mér finnast fullkomlega óþarfir þar.



Ef við berum saman tölur frá 2008 annars vegar og tölur frá 2012 hins vegar þá kemur eiginlega talsvert önnur mynd í ljós en haldið er fram af forsvarsmönnum kirkjunnar. Sleppum kirkjugarðsgjaldi og sóknargjöldum til annarra trúfélaga, þó ég sé jafn ósáttur við að standa undir rekstri þeirra – nema ég ef til vill kjósi sjálfur.



Árið 2008 fóru 0,627% af heildargjöldum ríkissjóðs til hinnar ríkisreknu kirkju.



Árið 2012 fóru 0,651% af heildargjöldum ríkissjóðs til sömu kirkju.

Þetta er ekki vísbending um að kirkjan hafi sætt meiri niðurskurði en aðrir.



Þá er rétt að hafa í huga að meðlimum þjóðkirkjunnar hefur fækkað nokkuð á þessum sama tíma.



Árið 2008 voru meðlimir þjóðkirkjunnar 252.708 en hafði fækkað í 245.456 árið 2012.



Þetta þýðir að það hlutfall sem skattpeningarnir okkar þurfa að standa undir hefur hækkað um tæp sjö prósent fyrir hvern meðlim frá 2008 til 2012, nánar tiltekið 6,85%.



Er ekki nærtækara að nálgast þetta öðru vísi?



Kirkjan heldur því fram að sóknargjöld séu félagsgjöld. Þau eru það reyndar ótvírætt ekki eins og marg oft hefur verið sýnt fram á. En lausnin er auðvitað einföld, ef kirkjan lítur í rauninni á þetta sem félagsgjöld, þá er best að meðhöndla þetta sem hver önnur félagsgjöld. Kirkjan sjái einfaldlega sjálf um að ákveða upphæð og innheimta. Það er fullkomlega óþarft að blanda ríkissjóði í málið. Þá þurfa forsvarsmenn kirkjunnar ekki að kvarta yfir hversu illa framkvæmdarvaldið er að fara með kirkjuna, þetta ákveður kirkjan sjálf með tilliti til þess hvað þarf til reksturs, eins og hvert annað félag. Og kirkjan innheimtir þetta auðvitað sjálf, eins og hvert annað félag.



Þá er því gjarnan haldið fram að hluti af greiðslum til kirkjunnar sé vegna jarða sem ríkið hafi fengið frá kirkjunni. Það vill hins vegar svo undarlega til að það veit enginn hvaða tekjur ríkissjóður hefur af þessum jörðum. Það veit enginn hvers virði þessar jarðir eru. Þetta er einfaldlega vegna þess að það veit enginn hvaða jarðir þetta eru. Næsta skref er að rifta þessum samningi og afhenda kirkjunni aftur þær jarðir sem hún getur gert lögmætt tilkall til.



Þá væri kjörið að taka út aðra liði sem fara til trúmála, rétt rúmar 600 milljónir árið 2012.



Ég er reyndar ekki að leggja til að þetta verði gert fyrirvaralaust, en það er kominn tími til að leggja línur og horfa til betri og heilbrigðari leiða.




Skoðun

Sjá meira


×