Skoðun

Heimilin eru grundvöllur samfélagsins

Baldvin Björgvinsson skrifar
Það er engin íslensk þjóð án íslenskra heimila. Fjölmörg heimili standa nú verulega illa vegna þess að sótt er að þeim með siðleysi og lögbrotum.

Ríkisstjórnin hefur svikið loforðið um skjaldborg um heimilin en varið lögbrjótana með öllum tiltækum ráðum. Stjórnvöld hafa meira að segja gengið svo langt að setja lög til að hjálpa lögbrjótunum að halda þýfinu með því að brjóta ákvæði stjórnarskrár. Sem betur fer stöðvaði Hæstiréttur þá feigðarför. Fjármálastofnanirnar halda samt enn þýfinu, fjórum árum síðar og framkvæmdarvaldið grípur ekki í taumana.

Það gera sér allir grein fyrir því að ástandið er alvarlegt. Fjöldi fólks hefur verið gerður gjaldþrota og eigurnar seldar nauðungarsölu á grundvelli ólöglegra gjörninga. Enn fleiri berjast vonlítilli baráttu við óréttlátt kerfi sem er ekki sniðið að þörfum íslensku þjóðarinnar, heldur að hagsmunum einhverra allt annarra.

Það getur enginn Íslendingur verið án þaks yfir höfuðið. Matur, klæði og húsaskjól eru grundvallaratriði sem hver Íslendingur á að eiga rétt á að geta orðið sér úti um. Hvort sem er að leigja húsnæði og láta annan sjá um rekstur og viðhald eða eignast sitt eigið húsnæði og sjá sjálfur um viðhald og rekstur. Í báðum tilfellum þarf tilkostnaður að vera hæfilegur og viðráðanlegur. Þannig er það alls ekki í dag. Húsnæðislánin eru óborganleg og leiga svo há að fáir ráða við hana. Það er í gangi kerfi sem gengur út á það eitt að græða sem mest fé á íslenskum fjölskyldum á sem skemmstum tíma.

Skiptir þá engu máli hvort fjölskyldurnar verða gjaldþrota í þessu ferli og aðalatriðið er að ná af þeim sem mestu. Þetta þarf að stöðva.

Því er haldið fram að það muni kosta stórfé að leiðrétta áfallið sem íslenskar fjölskyldur urðu fyrir við hrunið. Ekkert gæti verið fjarri lagi.

Það er einfaldlega verið að fara fram á að þýfinu verði skilað og að hér verði byggt upp réttlátt samfélag. Það er ekki verið að fara fram á beinar peningagreiðslur. Það er verið að tala um að afskrifa froðufé sem er ekkert annað en vextir, margir þeirra ólöglegir.

Íslendingar þurfa að ákveða á næstu vikum hvers konar þjóðfélagi þeir vilja búa í. Hver og einn kjósandi þarf svo að kjósa það sem er honum fyrir bestu.




Skoðun

Sjá meira


×