Viðskipti innlent

"Eins mikið beint frá býli og það getur orðið“

Ingveldur Geirsdóttir skrifar
Á bóndabýlinu Garði í Eyjafjarðarsveit er rekið stórt kúabú. Meðfram búinu er rekið kaffihús á fjósloftinu og selt nautakjöt beint frá býli. Nýverið fékk búið kjötvinnsluleyfi en sjaldgæft er að þeir sem selji nautakjöt beint frá býli vinni kjötið sjálfir. Það er bóndasonurinn, Einar Örn Aðalsteinsson, sem sér um kjötvinnsluna og kaffihúsið.

„Við vildum gefa fólki kosti á því að versla nautakjöt sem er virkilega beint frá býli. Við vinnum þetta allt saman hérna á býlinu og erum með faglærðan kjötiðnaðarmann sem sker fyrir okkur kjötið. Það er mikil eftirspurn, við finnum fyrir því, og við vildum bara svara henni,“ segir Einar í samtali við fréttastofu.

Einar lét innrétta gamla mjólkurhúsið undir kjötvinnsluna og vinnur þar þrjá gripi í mánuði. Gripirnir eru aldir upp á bænum, fara til slátrunar á Akureyri og skrokkurinn kemur svo á búið þar sem hann er unninn í neytendapakkningar í nýju kjötvinnslunni.  Kjötið er eins mikið beint frá býli og það getur orðið að sögn Einars.

„Það er ekki mikið um það að þeir sem selji nautakjöt beint frá býli séu sjálfir að vinna það? Ekki svo ég viti til, ég ætla ekki að fullyrða neitt, en við erum komin með þetta stóra leyfi. Ég má selja kjötið hvert sem er og þess vegna fara í útflutning ef ég gæti það og ég má selja út um allt."

Á fjósloftinu rekur Einar kaffihúsið Kaffi kú. Þar er hægt að gæða sér á veitingum með útsýni yfir fjósið og horfa á mjaltir í róbóta  af sjónvarpsskjá. Einar segir kjötvinnsluna fara vel með kaffihúsarekstrinum og þar er hann með nautakjöt til sölu í litlum frysti.

„Það vinnur ágætlega saman, við náum að kynna kjötið svolítið hérna en þetta er náttúrulega algjörlega ólíkt og truflar ekkert hvort annað."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×