Innlent

Makrílungviði klekst út og elst upp við Ísland

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Óskar
Niðurstöður aldursgreininga á makrílungviði frá 2010 benda til þess að seiði hafi klakist út á sama tíma og hrygning makríls átti sér stað innan íslensku lögsögunnar sama ár. „Þessar niðurstöður eru fyrstu vísbendingar um að makrílungviði hafi klakist út og alist upp við Ísland,“ segir í frétt á vef Hafrannsóknastofnunnar.

Makríl tók að birtast hér við land árið 2006 og veiddust 360 tonn af honum í sumarsíldveiðum. „Síðan þá hefur veiðisvæðið breiðst mikið út og aflinn aukist hratt milli ára og náði um 150 þúsund tonnum árið 2012.“

Stofnstærð makríls er metin út frá magni hrygndra eggja á þriggja ára fresti. Hafrannsóknastofnun tók fyrst þátt í matinu árið 2010, en þá tóku alls níu þjóðir þátt í rannsókninni sem var undir stjórn Alþjóða hafrannsóknaráðsins.

„Útbreiðsla makríleggja náði mun lengra til vesturs en búist var við og staðfesti það í fyrsta skipti að makríll er farinn að hrygna innan íslensku lögsögunnar.“

Árið 2006 fundust seiði á litlu svæði frá Selvogsbakka að Vestmannaeyjum. Árið 2010 fundust seiði aftur á móti víða, allt frá Höfn í Hornafirði að Látrabjargi. „Þá fannst í fyrsta skipti ársgamall makríll á mörgum stöðvum við Suðurland í vorralli Hafrannsóknastofnunar í mars 2011 sem bendir til vetursetu seiðanna hér við land.“

Aldursgreining á makrílungviði frá 2010, sem styrkt var af AVS sjóðnum og var samstarfsverkefni Hafrannsóknarstofnunnar og Háskóla Íslands, bendir til að makríl hafi klakist út og alist upp við Ísland. „Niðurstöður prófana í reklíkani benda jafnframt til þess að uppruna ungviðisins megi rekja til þessarar hrygningar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×