Innlent

Hestar læra kúnstir með einum smelli

Sólveig Gísladóttir skrifar
Ragnheiður stendur á hestinum Svala frá Hvítárholti. Ragnheiður hefur notað smelluþjálfun til að kenna hestum ýmsar kúnstir.
Ragnheiður stendur á hestinum Svala frá Hvítárholti. Ragnheiður hefur notað smelluþjálfun til að kenna hestum ýmsar kúnstir. Mynd/Valli
Ragnheiður Þorvaldsdóttir hefur kennt hestum sínum ýmsar kúnstir með smelluþjálfun. Hún segir vitundarvakningu vera meðal hestafólks sem vill læra aðferðina og komast í nánara samband við hestinn sinn.

Ragnheiður er fædd og uppalin í hestamennsku. Hún ólst upp í Hvítárholti í Hrunamannahreppi þar sem bæði móðir hennar og amma stunduðu hrossarækt. „Maður gerði ekki annað en að vera á hestbaki frá því maður var ponsulítill,“ segir Ragnheiður, en ekki kom annað til greina í hennar huga en að starfa í hestamennsku.

„Ég hef þjálfað hesta fyrir fólk frá því ég var fimmtán ára, í yfir fimmtán ár,“ segir Ragnheiður sem í dag temur, þjálfar, keppir og ræktar hesta.

Ragnheiður hefur þó undanfarið vakið athygli hestamanna fyrir frammistöðu sína á hestasýningum, bæði Æskunni og hestinum og Stórsýningu Fáks. Þar kom hún fram ásamt hryssu sinni Ósk frá Hvítárholti og saman léku þær ýmsar listir sem lögðust vel í áhorfendur. Hinar ýmsu kúnstir kenndi Ragnheiður hryssunni með smelluþjálfun sem hún hefur nýtt sér undanfarin ár með góðum árangri.

Fljótir að kveikja á perunni
„Mágkona mín lærði smelluþjálfun í Englandi og notaði mikið bæði á hesta og hunda. Hún kynnti þetta fyrir mér og svo byrjaði ég bara að fikra mig áfram,“ segir Ragnheiður sem er að mestu sjálfmenntuð í fræðunum.

„Ég lærði grunninn af mágkonu minni og hef svo lært af reynslunni. Í raun þarf maður bara að nota hugmyndaflugið og þá getur maður notað þetta í nánast hvað sem er,“ segir Ragnheiður og tekur fram að henni hafi komið á óvart hversu fljótvirk aðferðin er.

„Maður sér árangur um leið. Hestarnir eru fljótir að kveikja á perunni og læra hratt.“

En hvernig virkar smelluþjálfun?

„Maður byrjar á að bíða eftir ákveðinni hegðun, til dæmis að hesturinn snerti ákveðinn hlut. Þegar hann gerir það óvart smellir maður lítilli plastsmellu og gefur nammi um leið. Hesturinn fattar tenginguna um leið og endurtekur hegðunina,“ útskýrir Ragnheiður.

Smám saman er hægt að kenna hestinum flóknari hluti og smátt og smátt er nammið tekið út en smellurinn verður næg hvatning. Hún segir flesta hesta móttækilega fyrir þjálfunaraðferðinni þó alltaf séu einhverjir sem hafi engan áhuga. „Maður hefur séð gamla og lúna hesta breytast í frískleg folöld við smelluþjálfunin, þeir hlaupa um, elta bolta og finnst mjög skemmtilegt.“

Ósk hneigir sig.
Ragnheiður hefur aðallega notað smelluþjálfunina til að kenna hestum kúnstir en ekki í almennri reiðþjálfun.

„Það er svolítið erfitt að vera bæði með taum og smellu,“ segir hún glettin en útilokar ekki að hægt sé að nota smelluna til að kenna hestum ýmislegt í reið. „Maður getur til dæmis notað smelli til að venja hesta af hræðslu við hluti eða til að laga ýmis hegðunarvandamál.“

Meðal þess sem hestar Ragnheiðar kunna er að hneigja sig, snúa sér í hringi, sparka í bolta, dansa, leggjast niður, bakka og spænska skrefið.

„Þá fylgja þeir manni eftir alveg hundrað prósent,“ segir Ragnheiður og bætir við að með þessari þjálfun eflist tengsl manns og hests.

„Hryssan mín Ósk er til dæmis mjög viljug og stygg, ég næ henni varla úti í gerði. Þegar ég er með hana í þessum leikjum hleypur hún á eftir mér og gerir allt fyrir mig. Hún er líka að verða blíðari. Áður ruddist hún í burtu þegar ég tók af henni beislið, nú tekur hún sér tíma og stendur hjá mér og lætur knúsa sig.“

Hestarnir hafa mjög gaman af þjálfuninni. Ragnheiður segir gamla jálka breytast í frískleg unglömb þegar þeir hlaupa eftir bolta.
Ragnheiður segir mikla vitundarvakningu vera meðal hestamanna um aðrar þjálfunaraðferðir.

„Fólk er að uppgötva að hestamennska snýst ekki bara um að ríða í hringi,“ segir hún glaðlega.

Ragnheiður kyssir Svala fyrir umburðarlyndið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×