Viðskipti innlent

Sigurður: Hugmyndin var mín

Stígur Helgason skrifar
Sigurður Valtýsson er annar frá vinstri.
Sigurður Valtýsson er annar frá vinstri.
Sigurður Valtýsson, annar tveggja fyrrverandi forstjóra Existu, sagðist fyrir dómi nú fyrir hádegi hafa átt hugmyndina að þeirri fléttu að hækka hlutafé Existu um fimmtíu milljarða króna en borga einungis einn milljarð fyrir hana. Sú ákvörðun hefur nú getið af sér sakamál á hendur Lýði Guðmundssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Existu, og Bjarnfreði Ólafssyni, lögmanni á Logos.

„Ég hef aldrei kynnst öðrum eins fundi"

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, spurði Sigurð um fund sem hann, ásamt fleirum, átti með fulltrúum Fyrirtækjaskrár í júní 2009, eftir að þeim hjá Fyrirtækjaskrá varð ljóst að eitthvað væri bogið við hlutafjáraukninguna og tilkynninguna um hana frá því í desember 2008.

„Þar komu fram, að mínu mati, mjög vanstillt viðhorf starfsmanna Fyrirtækjaskrár. Ég hef aldrei kynnst öðrum eins fundi," sagði Sigurður. Fulltrúar Fyrirtækjaskrár hafi lýst að þeir teldu skrána hafa verið blekkta og að þeir hygðust afturkalla hlutafjárhækkunina. Þeir hafi þó einnig gengist við því að þar innanhúss hafi mistök verið gerð. „Þeir viðurkenndu að þetta hefði sloppið í gegn fyrir handvömm ólöglærðs starfsmanns," sagði Sigurður.

Þessi lýsing á fundinum er í nokkru ósamræmi við þá sem heyra mátti hjá lögmanninum Sigurmar K. Albertssyni. Hann bar einnig vitni nú í morgun og var í upphafi skýrslugjafar sinnar óskað til hamingju með afmælið af dómaranum Arngrími Ísberg. Sigurmar er 67 ára í dag.

Sigurmar sat fundinn hjá Fyrirtækjaskrá sem einn af fulltrúum Existu og sagði hann hann hafa verið yfirvegaðan og „á rólegum nótum".

Segjast ekki hafa vitað af áformum Nýja Kaupþings

Erlendur Hjaltason, hinn fyrrverandi forstjóri Existu, kom einnig fyrir dóminn. Bæði hann og Sigurður báru að þeim hafi ekki verið kunnugt um það þegar hlutafjárhækkunin var til umræðu innan Existu að Nýja Kaupþing hefði uppi áform um að taka félagið yfir, eins og greint var frá í fjölmiðlum nokkrum dögum síðar að stæði til.

Vitnaleiðslum í málinu er nú lokið og einungis málflutningur saksóknara og verjenda eftir. Hann hefst klukkan 8.30 í fyrramálið.


Tengdar fréttir

Lýður kannast ekki við varnaðarorð Deloitte

Lýður Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Existu, kannast ekki við það að endurskoðandi félagsins hjá Deloitte hafi tjáð honum að 50 milljarða hlutafjáraukning Existu stæðist ekki lög og Deloitte gæti aldrei skrifað upp á hana. Hann sagðist fyrir dómi fyrr í morgun ekki muna til þess að það hafi komið fram í símtali hans og endurskoðandans Hilmars Alfreðssonar.

Deloitte kvartaði til Logos

Forsvarsmenn endurskoðunarfyrirtæksins Deloitte sendu kvörtunarbréf til lögmannsstofunnar Logos þegar þeim varð ljóst að skýrsla sem endurskoðendur fyrirtækisins höfðu unnið um hlutafjáraukningu Existu hefði verið notuð til að koma henni í gegn hjá Fyrirtækjaskrá. Frá þessu greindu bæði Þorvarður Gunnarsson, forstjóri Deloitte á Íslandi, og endurskoðandinn Hilmar Alfreðsson frá fyrir dómi nú eftir hádegi.

Eftirlitsaðilar sáu ekkert athugavert

Eftirlitsaðilar sáu ekkert athugavert við hlutafjáraukninguna í Existu fyrr en hálfu ári eftir að hún var um garð genginn. Þeim var þó fullkunnugt um að einungis hefði einn milljarður verið greiddur fyrir 50 milljarða hlutafjáraukningu.

Bjarnfreður var fullur efasemda

Bjarnfreður Ólafsson, lögfræðingur á Logos, segir að hann og aðrir starfsmenn Logos hafa verið fulla efasemda um að það mundi standast að greiða einungis einn milljarð fyrir 50 milljarða hlutafjáraukningu í Existu, eins og Lýður og Ágúst Guðmundssynir gerðu í desember 2008.

Töldu öll Deloitte hafa vottað viðskiptin

Fyrri degi aðalmeðferðar í Exista-máli sérstaks saksóknara er nú lokið. Vitnaleiðslum verður fram haldið í fyrramálið og að því loknu tekur málflutningur saksóknara og verjenda við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×