Skoðun

Kapp um app – Íslendingaapp

Kristrún Halla Helgadóttir skrifar
Í tilefni þess að tíu ár eru liðin frá því að Íslendingabók fór á netið ákváðu Íslensk erfðagreining og Verkfræði- og náttúruvísindasvið (VoN) Háskóla Íslands að standa fyrir samkeppni meðal háskólanemenda um besta hugbúnaðinn (appið) fyrir snjallsíma og spjaldtölvur. Íslendingabók, sem er samstarfsverkefni Friðriks Skúlasonar og Íslenskrar erfðagreiningar, varð gerð aðgengileg á netinu þann 18. janúar 2003. Á þessum tíu árum hefur Íslendingabók notið mikilla vinsælda og hafa um 200.000 manns fengið lykilorð að síðunni. Ljóst er að landsmenn kunna vel að meta þessa afþreyingu sem hefur verið endurgjaldslaus frá upphafi því í ljós hefur komið að flettingar eru yfir 40.000 á hverjum degi.

Notkunin nær til fólks á öllum aldri og er ekki bundin við ákveðinn aldurshóp. Það sem hægt er að skoða í Íslendingabók eru helstu upplýsingar um notanda, ættartré, upplýsingar um nánustu ættingja aftur í þriðja lið og afkomendur þeirra og alla þá sem fæddir eru fyrir árið 1700. Einnig geta notendur rakið sig saman við hvern sem er í Íslendingabók og séð hver skyldleikinn er. Í Íslendingabók má orðið finna þétt net tenginga á milli einstaklinga og flesta þá Íslendinga sem uppi hafa verið frá því á 18. öld. Það sem gerir okkur kleift að byggja upp gagnagrunn eins og Íslendingabók eru vel skráðar og vel varðveittar frumheimildir eins og manntöl og kirkjubækur sem ná jafnvel aftur á 17. öld.

Með þessari samkeppni um besta appið gefst ekki einungis kostur á að auka þjónustuna við hina fjölmörgu notendur Íslendingabókar heldur gefst einnig kostur á að tefla saman í liði nemendum úr ólíkum greinum og jafnvel ólíkum háskólum. Keppnin hvetur þannig til þverfaglegs samstarfs sem gæti ef til vill orðið upphafið að einhverju meiru. Það reynir ekki aðeins á færni í forritun heldur einnig í hönnun, nýbreytni og kynningu. Spennandi verður síðan að sjá afraksturinn hjá liðunum. Við hvetjum landsmenn til að koma og sjá kynningar liða sem fram fara laugardaginn 13. apríl kl. 13 í sal Íslenskrar erfðagreiningar við Sturlugötu 8. Einnig verður hægt að fylgjast með í beinni útsendingu á vefnum www.islendingaapp.is.




Skoðun

Sjá meira


×