Skoðun

Nafnlausum dalunnanda svarað

Björn Guðmundsson skrifar
Nýlega birtist í þessu blaði grein eftir mig undir fyrirsögninni „Skógræktaröfgar í Elliðaárdal“.

Nokkru fyrr tjáði ég mig um niðurstöður rannsókna á torlæsi allstórs hóps ungmenna á Íslandi. Hef ekki séð niðurstöður rannsókna á torlæsi fullorðinna.

Mér verður hugsað til þess síðarnefnda vegna athugasemda sem ég hef fengið vegna greinarinnar um skógræktina.

Mér barst nafnlaust bréf í pósti. Bréfritari segir: „Ég býst við að þú eigir einhvern vin í þessum húsum þar sem þú ert að verja þessar hamfarir.“

Ég get upplýst bréfritara um að ég þekki ekki nokkurn mann sem býr við Rituhóla. Ég segi heldur ekki eitt einasta orð til að verja gerðir íbúa við Rituhóla. Ég segi bara hvað þeir gerðu og hvers vegna. Greinin var að mestu skrifuð á haustmánuðum. Kveikjan var veiðidagur sem ég átti í Elliðaánum síðasta sumar þar sem ég komst að því að trjám hafði verið plantað á göngustíg sem veiðimenn ganga meðfram ánni. Málsgreininni um Rituhólamálið var bætt við daginn sem greinin var send inn.

Bréfritari segir líka: „Ég hvet þig til að ganga um svæðið og sjá hamfarirnar. Þarna verður aldrei mólendi þótt skógurinn verði felldur…“

Ég hef alls ekki lagt til að skógurinn verði felldur. Ég læt aðeins í ljós þá ósk mína að svæðið milli athafnasvæðis Fáks og árinnar fái áfram að vera trjálaust að mestu.

Ekki góðir siðir

Bréfritari spyr hvort ég gangi þarna daglega og hvort ég þekki náttúruna. Ég hef búið í nágrenni Elliðaárdalsins frá fæðingu, lék mér þar sem barn og hef notið útivistar þar sem fullorðinn. Í 30 ár hef ég ýmist gengið eða hjólað um dalinn til vinnu minnar.

Í fullri auðmýkt viðurkenni ég að þekking mín á náttúrunni er takmörkuð og ég vinn að því að bæta hana. Ég hef þó lokið háskólaprófi í efnafræði og setið háskólanámskeið m.a. í umhverfis- og auðlindafræði, líffræði, fuglafræði og jarðfræði. Í 34 ár hef ég kennt náttúrufræðigreinar í framhaldsskóla.

Útivist, náttúruskoðun og náttúruvernd hafa verið aðaláhugamál mín í meira en 40 ár. Með þessu hef ég stundað landslagsljósmyndun, fuglaskoðun og fuglaljósmyndun.

Ég hef ritað blaðagreinar um náttúruvernd. Nýlega skrifaði ég forsætisráðherra opið bréf í viðleitni minni til að koma í veg fyrir skemmdarverk á Þríhnúkagíg. Einnig sendi ég nýlega inn tillögu á „Betri hverfi“ þess efnis að uppræta lúpínu í hverfisfriðlandi Bugðu í Norðlingaholti. (Bréfritari spurði: „Veist þú að lúpínan er að yfirtaka dalinn?“).

Bréfritarinn sem kallar sig dalunnanda segir: „Þar sem ég veit ekki hvort ég er að senda réttum ritara bréfið þá sleppi ég nafninu mínu. Þó að ég skammist mín ekki fyrir að senda þetta bréf.“

Ég verð að hryggja dalunnanda með því að á meðal siðaðs fólks teljast það ekki góðir siðir að senda fólki nafnlaus bréf. Vonandi sér hinn nafnlausi dalunnandi að sér.




Skoðun

Sjá meira


×