Viðskipti innlent

Setja sextíu milljónir í Startup Energy Reykjavík

Haraldur Guðmundsson skrifar
Um hundrað manns mættu á félagsfund Íslenska jarðvarmaklasans þar sem tilkynnt var um stofnun Startup Energy Reykjavík.
Um hundrað manns mættu á félagsfund Íslenska jarðvarmaklasans þar sem tilkynnt var um stofnun Startup Energy Reykjavík. Fréttablaðið/Valli
„Það fara um sextíu milljónir króna í þessa viðskiptasmiðju en sú upphæð fer bæði í rekstur hennar og fjármögnun verkefna,“ segir Hákon Gunnarsson, framkvæmdastjóri Íslenska jarðvarmaklasans.

Viðskiptasmiðjan Startup Energy Reykjavík (SER) var formlega stofnuð á félagsfundi klasasamstarfsins síðastliðinn þriðjudag. Henni er ætlað að fjármagna og styðja við verkefni og fyrirtæki í orkutengdum iðnaði og þjónustu. Landsvirkjun, Arion Banki, klasasamstarfið GEORG og Nýsköpunarmiðstöð Íslands koma að fjármögnun verkefnisins en framkvæmd þess verður í höndum Íslenska jarðvarmaklasans og Klak Innovit.

„Auglýst verður eftir ­verkefnum og á endanum fjárfest í sjö þeirra. Eftir það verða haldnar tíu vikna æfingabúðir í Háskólanum í Reykjavík í mars þar sem þátttakendur munu vinna að sínum nýsköpunarverkefnum,“ segir Hákon.

Að þeim tíma loknum verður að hans sögn haldinn fjárfestadagur þar sem fyrirtækin kynna hugmyndir sínar fyrir fjárfestum.

„Þá mun reyna töluvert á það hversu vel hefur gengið. En reynslan með Startup Reykjavík hefur sýnt að fyrirkomulagið hentar vel til þess að efla og undirbúa fyrirtæki sem eru að taka sín fyrstu skref í mótun og framkvæmd viðskiptahugmynda.“

Hákon segist binda miklar vonir við að mörg spennandi verkefni verði að veruleika í gegnum smiðjuna og nefnir sérstaklega verkefni í tengslum við nýtingu jarðvarma.

„Þar liggja gríðarlegir möguleikar, annars vegar í að ná betri nýtingu á orkunni og hins vegar í fjölnýtingunni. Margir hafa sýnt þessu áhuga og orkufyrirtækin eiga til dæmis verkefni á vinnslustigi sem þau hafa verið að vinna að í samvinnu við marga aðila. Þarna er hugsanlega kominn farvegur fyrir slík verkefni. Smiðjan er því tæki til að leysa úr læðingi möguleika sem hafa ekki verið í forgangi en gætu skilað ­miklum framtíðarverðmætum,“ segir Hákon og bætir því við að opnað verði fyrir umsóknir á kynningar­fundi um SER hinn 16. janúar næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×