Viðskipti innlent

Íslensk minkaskinn seld fyrir hátt í 400 milljónir í Kaupmannahöfn

Íslenskir minkabændur munu selja minkaskinn fyrir hátt í 400 milljónir króna á uppboði sem nú stendur yfir hjá Kopenhagen Fur í Kaupmannahöfn.

Björn Halldórsson formaður Samtaka islenskra loðdýrabænda er staddur í Kaupmannahöfn. Hann segir að metverð fáist fyrir íslensku skinnin á uppboðinu en alls verða um 30.000 íslensk skinn seld á því. Þegar er búið að selja helminginn af íslensku skinnunum en uppboðinu lýkur á morgun.

Verðið nemur nær 12.000 krónum á skinn að meðaltali og hefur ekki verið hærra í sögunni. Um er að ræða 4% hækkun frá uppboðinu í desember s.l. en þá fékkst einnig metverð fyrir íslensku minkaskinnin.

Björn segir að sem fyrr séu Kínverjar mjög áberandi í hópi kaupenda en Rússar hafa einnig komið sterkt inn á markaðinn undanfarna mánuði. Uppboðið sem nú stendur yfir hjá Kopenhagen Fur er það stærsta í sögunni en á því verða 5,6 milljónir skinna boðin upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×