Innlent

Sakar félagana um pólitískar ofsóknir

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Sjálfstæðismennn í bæjarstjórn Kópavogs takast á um nýtingu Kórsins í Kópavogi. Fréttablaðið/Vilhelm
Sjálfstæðismennn í bæjarstjórn Kópavogs takast á um nýtingu Kórsins í Kópavogi. Fréttablaðið/Vilhelm
„Þetta er einhver misskilningur hjá Ármanni blessuðum,“ segir Gunnar I. Birgisson, bæjarfulltrúi í Kópavogi, um bókun Ármanns Kr. Ólafssonar bæjarstjóra um að ályktanir Gunnars varðandi gestafjölda í íþróttahúsum einkenndust af pólitískum ofsóknum.

Gunnar óskaði fyrir nokkru eftir upplýsingum um nýtingu á íþróttahúsum í Kópavogi. Á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag lagði hann fram bókun um málið ásamt samflokksmanni þeirra Ármanns, Aðalsteini Jónssyni.

„Eftir að hafa skoðað talningar í íþróttahúsum Kópavogsbæjar, er ljóst að nýting nokkurra íþróttamannvirkja er ekki ásættanleg. Sérstaklega á þetta við um knatthúsið og tvöfaldan íþróttasal í Kórnum,“ sagði í bókuninni. „Algjörlega óafsakanlegt“ væri að nýta ekki íþróttamannvirki bæjarins betur.

„Þær ályktanir sem bæjarfulltrúarnir Gunnar Ingi Birgisson og Aðalsteinn Jónsson draga af talningum í íþróttahúsum eru beinlínis rangar og einkennast af pólitískum ofsóknum gagnvart einu íþróttafélagi,“ bókaði þá Ármann bæjarstjóri. Íþróttafélagið sem hann vísar til er HK sem hefur umsvif í Kórnum.

Ármann Kr. Ólafsson og Gunnar I. Birgisson
Spurður um þetta mál segist Ármann hafa verið ósáttur við framsetningu Gunnars og Aðalsteins á efni greinargerðar sem lögð var fram í mars. Þar hafi komið fram að Kórinn sé betur nýttur en íþróttahúsið Smárinn.

„Ég skil bara ekkert í þeim að setja þetta fram með þessum hætti þegar skýrslan sýnir að þetta er akkúrat þveröfugt. Ég átta mig ekki á af hverju er verið að snúa út úr henni,“ segir Ármann.

Gunnar segir bókun Ármanns byggða á misskilningi. „Þetta var allt vel meint og er bara hvatning til íþróttafélaganna að reyna að nýta húsin betur. Það kostar nú ekkert smávegis eitt svona hús,“ bendir Gunnar á.

Ármann hafnar því að þessi deila hafi áhrif á samstarfið í meirihlutanum. „Þetta er einangrað mál,“ undirstrikar bæjarstjórinn.

Eins og Ármann hafnar Gunnar því að þessar væringar breyti nokkru um samstarf meirihlutans sem sjálfstæðismenn mynda með bæjarfulltrúum Y-listans og Framsóknarflokks. „Þetta er bara stormur í vatnsglasi,“ útskýrir Gunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×