Skoðun

Tossarnir okkar

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
„Æ, maður verður nú að geta sýnt fram á að maður geti klárað fleira en morgunmatinn sinn,“ sagði við mig náungi sem ég hitti í gær. Nýtur þjóðfélagsþegn í dag, en getur ekki fengið formleg starfsréttindi – af því að hann kláraði ekki grunnskóla. „Ég er einn af þeim,“ sagði hann við mig og brosti kankvís, „tossunum“. Þau hjónin ætla að eyða sumarfríinu við þá rómantísku iðju að læra stærðfræði. Freista þess að ná áfanga í algebru svo hann fái einhvern tímann réttindi í sínu fagi.

Hann er einn af mörgum sem voru „sviknir“ af skólakerfinu. Magnús Þorkelsson, aðstoðarskólameistari við Flensborg, er einn af mörgum góðum viðmælendum mínum í þáttaröðinni Tossarnir á Stöð 2. Í DV í fyrradag segir hann það einkennandi fyrir þættina að fullyrðingum sé slengt fram og ýjar að því að farið sé óvarlega með tölur.

Þessu verð ég að mótmæla. Magnús skrifar: „Dæmi: Strákum gengur verr í skóla en stelpum. Rangt.“ Ótal tölur benda til þess að fleiri strákar en stelpur fúnkeri illa í skóla. Rannsóknir og greining, sem hefur rannsakað hagi ungmenna á Íslandi í um tuttugu ár, var svo elskuleg að vinna úr sínum gögnum fyrir þættina.

Tölfræði frá þeim sýnir m.a.: 

  • Árið 2012 leiddist nærri tvöfalt fleiri strákum (29%) en stelpum (16%) námið í 9. og 10. bekk. Kynjamunur hefur verið viðvarandi í þessu um árabil.
Auk þess:

  • Samkvæmt Hagstofunni (fólk innritað í framhaldsskóla 2003) höfðu 36% strákanna útskrifast eftir fjögur ár en 52% stelpna.
  • Kynjamunur hefur verið viðvarandi í PISA-rannsóknum á Íslandi allt frá árinu 2000.


Enginn hefur samúð með Excel-tölum

Öll tölfræði í Tossunum er byggð á traustum gögnum. Hins vegar er skoðunum slengt fram, eðli máls samkvæmt. Ekki veit ég hvort það er „femínismi“ eða „andfemínismi“ sem er að skaða drengi í skólum. Held það sé ekki hægt að mæla það.

Þá segir Magnús þættina öfluga „en svolítið ruglingslega“. Það hefur enginn samúð með Excel-tölum. Við getum hins vegar skilið og skynjað vandann í gegnum ruglingslegt líf fólks sem flosnaði upp úr skóla – og vonandi gert eitthvað í þessu!




Skoðun

Sjá meira


×