Skoðun

Landsdómur?

Bjarni E. Guðleifsson skrifar
Ég ætlaði alltaf að hlekkja mig við vinnuvélarnar við Kárahnjúka en mig brast kjark.

Það hefði líklega ekki breytt miklu. Davíð, Halldór, Friðrik, Valgerður og Siv höfðu öll völd. Þau hunsuðu vísindalegar viðvaranir fræðinga. Í útvarpsviðtali taldi Davíð sérfræðinga Skipulagsstofnunar "ókjörna" fulltrúa og þess vegna væri ekki mark á þeim takandi. Siv taldi efnahagslegan ávinning mikilvægari en nokkra "fermetra" gróðurlendis á heiðum og líf Lagarfljóts. Valgerður gerði grein fyrir atkvæði sínu í atkvæðagreiðslunni á Alþingi: "Þetta er stór dagur í íslenskri atvinnusögu, ég segi já." Þetta var hins vegar sorgardagur í sögu íslenskrar náttúru.

Mest er ábyrgð og skömm Sivjar Friðleifsdóttur sem "drap" Lagarfljót. Einn borgarfulltrúi (reyndar "kjörinn") sagði að "skömm þessara manna mun uppi meðan land byggist". Nú ætti skömmin að vera öllum ljós. Skyldi þetta fólk biðjast afsökunar? Ekki heyrist mér það á Siv, það skammast sín ekki og biðst ekki afsökunar fremur en útrásarvíkingarnir.

Landsdómur er sérdómstóll sem fer með og dæmir mál sem Alþingi ákveður að höfða gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra. Ég held að þetta fólk ætti að draga fyrir landsdóm miklu fremur en Geir. Mig minnir að Geir hafi verið dæmdur fyrir athafnaleysi. Má ekki á sama hátt dæma Siv umhverfisráðherra (sem á að vera verndari íslenskrar náttúru) fyrir að aðhafast ekkert til verndar náttúrunni, eða öllu heldur að aðhafast gegn henni með því að sniðganga mat Skipulagsstofnunar? Líklega eru þessi mál fyrnd eða Landsdómur á ekki við. Ég veit ekkert um það, en mér finnst að þetta fólk eigi að sæta ábyrgð. Ég hef trú á að það ætli bara að standa af sér umræðuna eins og hvert annað óveður, í von um að þetta gleymist í umræðunni um Evrópusamband og stjórnarskrá.

Nú heyrist mér í kosningabaráttunni að sigurstranglegustu flokkarnir ætli að koma skriði á atvinnulífið, væntanlega með því að ýta náttúruverndarsjónarmiðum til hliðar. Þeim finnst þau alltaf flækjast fyrir. Látum umrætt skemmdarverk verða víti til varnaðar. Maðurinn getur vel lifað í og af náttúrunni án þess að valda óafturkræfum spjöllum. Spurning um hugkvæmni og vilja.




Skoðun

Sjá meira


×