Innlent

Forvarnir muni líða fyrir niðurskurðinn

Þorgils Jónsson skrifar
Fyrirhugaður niðurskurður til framhaldsskólanna mun koma illa niður á forvarnastarfi, að sögn kennara og forvarnafulltrúa.
Fyrirhugaður niðurskurður til framhaldsskólanna mun koma illa niður á forvarnastarfi, að sögn kennara og forvarnafulltrúa.
Fyrirhugaður niðurskurður á framlögum til framhaldsskóla kemur óumflýjanlega til með að koma niður á starfi skólanna, ekki síst stoðþjónustu á borð við forvarnir. Þetta segir Hrafnkell Tumi Kolbeinsson, framhaldsskólakennari við Flensborgarskólann og forvarnafulltrúi. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að heildarframlög til framhaldsskólanna lækki um 1.544 milljónir til viðbótar við niðurskurð síðustu ára.

„Það er einfaldlega ekki hægt að taka alla þessa peninga út úr kerfinu á sama tíma og nemendum fjölgar án þess að eitthvað gefi eftir,“ segir Hrafnkell Tumi. „Öll stoðþjónusta, þar á meðal forvarnir, mun láta undan. Þetta er eitt af stóru málunum.“

Hrafnkell Tumi Kolbeinsson
Hrafnkell Tumi segir að ástand mála í forvörnum í framhaldsskólum megi bæta töluvert frá því sem nú er. Forvarnafulltrúar séu jafnan kennarar í hlutastörfum, í á milli fimm og tíu prósenta starfshlutfalli og komist sjaldnast yfir annað en að vera í gæslu á skólaböllum. 

„Það eitt tekur upp nær allan þennan tíma, þannig að það er útséð með að þeir nái að sækja þekkingu á ráðstefnum úti í bæ eða að fá aðra kennara með sér í þetta. Þannig að það er sáralítið gert og á síðustu árum hefur verið dregið saman í þessu starfi, jafnvel lagðar niður stöður í stöku skólum.“

Ný lög gera ráð fyrir að í hverjum skóla sé forvarnaáætlun til staðar en kannanir sýna með óyggjandi hætti að neysla ungmenna eykst stórum á milli grunnskóla og framhaldsskóla ásamt því að viðhorf bæði ungmenna og foreldra þeirra gjörbreytist.

Í nýlegri könnun Rannsóknar og greiningar hjá Háskólanum í Reykjavík kemur meðal annars fram að í tíunda bekk síðasta vor hafi um fimm prósent nemenda orðið ölvuð á síðustu þrjátíu dögum, en hlutfall sextán og sautján ára framhaldsskólanema í haust sem sama gilti um, var 35 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×