Innlent

Vilja endurskoða fjölda trúarfrídaga

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
„Við erum nú þegar með gríðarlega marga rauða daga, miklu fleiri en nágrannalöndin,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Þorsteinn segir enga forsendu fyrir því að fjölga frídögum á Íslandi. Miklu frekar ætti að taka almenna umræðu um það hvaða framtíðarfyrirkomulag við viljum hafa á því hvaða frídagar eiga að vera inni og hverjir úti.

„Sér í lagi mætti skoða þetta út frá sjónarhorni trúfrelsi, við erum með verulegt magn af trúarfrídögum, á sama tíma og við búum við trúfrelsi. Við teljum það mætti endurskoða þennan mikla fjölda eitthvað,“ segir Þorsteinn sem segir að ekki sé hægt að þróa samfélagið bara í eina átt í þessu.

Hann segir SA mjög hlynnta því að færa frídaga af miðri viku upp að helgum, slíkt muni auka framleiðni í þjóðfélaginu í heild en framleiðslustopp í miðri viku hafi gríðarlegt óhagræði í för með sér fyrir framleiðslufyrirtæki.

Vísir greindi frá því í dag að Björt framtíð hafi lagt fram frumvarp á Alþingi sem kveður á um breytingar á frídögum. Samkvæmt frumvarpinu verður gefið frí á föstudegi eftir uppstigningardag og sumardaginn fyrsta. Beri jóladag, annan í jólum, nýársdag eða 17. júní upp á frídag á að gefa aukafrídag næsta virka dag á eftir. Baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, yrði svo haldinn hátíðlegur fyrsta mánudaginn í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×