Innlent

Segir að stjórnarandstaðan hafi náð að gera vont fjárlagafrumvarp aðeins betra

Höskuldur Kári Schram skrifar
Árni Páll Árnason, Vigdís Hauksdóttir og Katrín Jakobsdóttir.
Árni Páll Árnason, Vigdís Hauksdóttir og Katrín Jakobsdóttir.
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar segir að með samkomulagi formanna stjórnar- og stjórnarandstöðuflokka hafi vont fjárlagafrumvarp með vitlausa forgangsröðun aðeins skánað.

Formenn stjórnar- og stjórnarandstöðuflokka náðu seint í gærkvöldi samkomulagi um þinglok og afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Önnur umræða um frumvarpið hafði þá staðið yfir í nærri þrjátíu klukkustundir.

Samkvæmt samkomulaginu verður meðal annars fallið frá komugjöldum á sjúkrahús, atvinnlausir fá rúmlega 50 þúsund króna desemberuppbót, fjárframlag til rannsóknar- og vísindasjóða verður hækkað og þá verður skipuð þverpólitísk nefnd sem á að móta reglur um álagningu gjalds á nýjar fisktegundir í íslenskri lögsögu. Er meðal annars verið að horfa til makríls í því samhengi.

Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar Alþingis segir að samkomulagið muni áhrif á ááætlaðan tekjuafgang ríkissjóðs á næst ári. „Það verður til þess að það verður ekki eins mikill tekjuafgangur eins lagt var upp með fyrir aðra umræðu en við eigum fyrir þessu. Við erum réttum megin við núllið,“ segir Vigdís.

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar segir að frumvarpið hafi tekið breytingum til hins betra.

„Vont fjárlagafrumvarp með vitlausa forgangsröðun hefur aðeins skánað. Okkur hefur tekist að vinda ofan af ýmsum af þeim verstu þáttum sem birtust í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Auðvitað er margt enn sem við hefðum viljað ná að hafa áhrif á til góðs eins og framlög til þróunarsamvinnu osfrv. en við náum ákveðnum árangri að þessu leyti,“ segir Árni.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna tekur í sama streng.

„Ég fagna því að okkar málflutningur hafi skilað góðum breytingum á frumvarpinu,“ segir Katrín.

Hún telur þó ekki að breytingarnar séu svo miklar að hægt verði að skapa þjóðarsátt um frumvarpið. „Ég myndi ekki nota orðið þjóðarsátt um þetta frumvarp enda er auðvitað margt sem stendur út af. Það sem skiptir mestu máli að þarna hafa verið gerðar ákveðnar umbætur en þar með er ekki sagt að við munum styðja allt frumvarpið,“ segir Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×