Innlent

Viðskiptajöfnuður aldrei hærri

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Pjetur
„Aldrei áður hefur meiri afgangur mælst af viðskiptajöfnuði á einum ársfjórðungi en á þriðja fjórðungi nú í ár. Bendir allt til þess að viðskiptajöfnuðurinn á árinu 2013 í heild verði sá hagstæðasti frá upphafi.“ Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka.

Einnig segir að undirliggjandi staða þjóðarbúsins sé talsvert skárri en fyrri tölur hafi bent til. Það skrifast það á endurskoðun eldri talna og jákvæða þróun milli ársfjórðunga. Þetta má sjá úr tölum sem Seðlabankinn birti í gær.

„Viðskiptajöfnuður án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð mældist hagstæður um 62,5 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi. Sé hlutur innlánsstofnana meðtalinn í þáttatekjum, sem voru í raun með minni halla nú en oft áður, nemur afgangur af viðskiptajöfnuði 53,9 milljörðum króna.“

Þarna er um að ræða langmesta afgang á ársfjórðungi frá upphafi, eða í þá rúmu tvo áratugi sem tölur Seðlabankans ná til. Á það við hvort sem áhrif innlánsstofnana í slitameðferð eru talin með eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×