Viðskipti innlent

Bókaútgáfa ársins veltir 4,6 milljörðum króna

Haraldur Guðmundsson skrifar
Fimm stærstu útgáfufyrirtækin gefa út um 44 prósent af bókaútgáfu ársins. Forlagið er með flesta titla í sölu þetta árið.
Fimm stærstu útgáfufyrirtækin gefa út um 44 prósent af bókaútgáfu ársins. Forlagið er með flesta titla í sölu þetta árið. Fréttablaðið/V
Félag íslenskra bókaútgefenda gerir ráð fyrir að heildarvelta innlendrar bókaútgáfu á þessu ári verði svipuð og síðustu ár, eða á milli 4,5 og 4,7 milljarðar króna.

Um sjö hundruð nýir bókatitlar eru til sölu fyrir þessi jól samkvæmt nýútgefnum Bókatíðindum félagsins. Þar eru skráðir 125 útgefendur með eina bók eða fleiri. Skráningin er þó ekki tæmandi því tíðindin ná aldrei utan um alla titla hvers árs.

Fimm stærstu útgáfufyrirtækin gefa út um 44 prósent af þeim bókum sem nefndar eru í tíðindunum. Útgáfufyrirtækið Forlagið á, líkt og undanfarin ár, flesta titla í sölu þetta árið, um 145, eða um 21 prósent af titlum Bókatíðinda.

Um sex milljarðar í heildina

„Bókaútgáfa hér á landi veltir um fjórum og hálfum milljarði króna á ári. Við þá veltu bætist síðan álagning smásala og sjö prósent virðisaukaskattur og ég giska því á að bóksala skili á endanum um sex milljörðum króna út úr búð,“ segir Egill Örn Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda og framkvæmdastjóri Forlagsins.



Að hans sögn seljast um tvær milljónir bóka hér á landi á hverju ári, eða um sex bækur á hvern Íslending.

„Flestar bækur seljast í um þúsund eintökum og þrjú þúsund eintök þykir mjög gott. Þær bækur sem eru að enda í fimm efstu sætunum á metsölulistanum eftir áramót eru bækur sem hafa selst í tíu þúsund eintökum eða meira,“ segir Egill.



Á annað hundrað sölustaðir


„Við höfum á undanförnum árum séð verulega aukningu í bókasölu á öðrum árstímum en fyrir jól. Hér á landi hefur orðið til mjög virkur og góður heilsársmarkaður með bækur, en hér á árum áður einskorðaðist bókasala að stórum hluta við jólabókaflóðið,“ segir Egill.

Hann segir að á annað hundrað sölustaðir selji bækur fyrir þessi jól.

„Sem er auðvitað ótrúlegur fjöldi og það má segja að í nánast hverju sveitarfélagi finnist að minnsta kosti einn staður sem selur bækur og jafnvel mun fleiri. Þetta er auðvitað einskorðað við jólabókaflóðið en mér sýnist þó að útsölustöðum bóka sé að fjölga með aukinni heilsárssölu,“ segir Egill.

„Eftir sem áður er bókin gríðarlega sterk jólagjöf og Félag íslenskra bókaútgefenda hefur látið framkvæma fyrir sig skoðanakannanir í ansi mörg ár þar sem kemur í ljós að langflestir einstaklingar eru að fá eina eða fleiri bækur í jólagjöf á hverju ári.“

Svipað bókaverð

Aðspurður hvort verð á bókum hafi hækkað segir Egill að hann telji fljótt á litið að bókaverð sé svipað og á síðasta ári.



„Ég hef engar hækkanir séð sjálfur og sýnist bækur vera ef eitthvað er á betra verði núna í upphafi jólabókaflóðs en í fyrra, sem skýrist fyrst og fremst af mikilli verðsamkeppni á bókamarkaðinum. Undanfarin tuttugu ár hefur ríkt mikil samkeppni um verð á jólabókunum og stórmarkaðir og bókabúðir hafa átt í harðri samkeppni þegar kemur að verði,“ segir Egill og bætir því við að nýjar skáldsögur seljist oft á undir fjögur þúsund krónum.

Þegar bókaútgáfa ársins er skoðuð sést að sumir bókaflokkar innihalda fleiri titla en þeir gerðu á síðasta ári. Má þar meðal annars nefna matreiðslubækur og ævisögur. Spurður hvort hætta sé á offramboði á bókum í þessum flokkum segir Egill að erfitt sé að leggja mat á það áður en jólabókasölunni lýkur.

„Það skýrist ekki fyrr en eftir jól. Mér sýnist úrvalið vera einstaklega breitt í ár og allir flokkar afar vel skipaðir ef svo má að orði komast. Við sjáum vissulega sveiflur í útgáfu í einstökum flokkum og til dæmis komu út fleiri íslenskar skáldsögur í fyrra en í ár. En ég myndi ekki taka svo djúpt í árinni að segja að í fyrra hafi verið offramboð eða að það sé skortur núna. Það eru fyrst og fremst gæðin sem skipta máli, fremur en fjöldi titla. Og gæðin eru að mér sýnist sérlega mikil í ár,“ segir Egill.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×