Viðskipti innlent

„Ég á ekkert í þessum skíðaskála“

Hannes Smárason
Hannes Smárason mynd/heiða helgadóttir
Hannes Smárason segist ekkert eiga í skíðaskála í Frakklandi eins og sagt er frá á forsíðu DV í dag.

Í yfirlýsingu sem lögmaður hans sendi fjölmiðlum nú í kvöld segir Hannes að hann eigi ekkert í skálanum, hvorki beint né í gegnum eignarhaldsfélög í skattaskjólum.

Í frétt DV segir að Hannes eigi skálann, sem kosti tvo milljarða, ásamt Magnúsi Ármann.

Þá segir Hannes að þeir Hannes þekki rekstur skálans, og að þeir hafi komið að rekstri hans, en að frétt DV snúist ekki um það. Fréttin sé röng og hún hafi "augljóslega ekki annan tilgang en að vera ærumeiðandi."



Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér að neðan:

Í DV í dag er fullyrt að við Magnús Ármann eigum skíðaskála í Frakklandi – glæsihús sem kosti tvo milljarða.  "Fréttin" er skrifuð af Inga Frey Vilhjálmssyni.

„Fréttin“ er röng. Ég á ekkert í þessum skíðaskála, hvorki beint né „í gegnum eignarhaldsfélög í skattaskjólum“, eins og sagt er.  Sama gildir um Magnús.  Ég og Magnús þekkjum þessa eign og höfum komið að rekstri hennar, en „fréttin“ snýst ekki um það.  Hvorugur okkar er eigandi, eins og áður segir, og ég kem ekki að rekstri þessarar fasteignar í dag.

„Fréttin“ er röng og hefur augljóslega ekki annan tilgang en að vera ærumeiðandi, ekki síst í ljósi þess að „blaðamaðurinn“ vísar til viðtals við mig sem birtist nýlega, þar sem fram kom hjá mér að ég sé ekki eignamaður í dag.

„Blaðamaðurinn“ hafði ekkert samband við mig við vinnslu „fréttarinnar“, sem er í takti við hans fyrri vinnubrögð.  Hann hefur greinilega lítinn áhuga á að fara með rétt mál.

Á tímabilinu 1. janúar 2009 til 16. nóvember sl. hefur DV fjallað um mig á forsíðum, vefriti og prentuðum greinum sem telja rúmlega 380 birtingar. Í flestum, ef ekki öllum, tilvikum undir neikvæðum formerkjum.  Greinarskrifin standa ekki undir því að geta talist fréttir. Miklu fremur er um að ræða rangar frásagnir, meiðandi ummæli, rógburð, þrástef og „ekki-fréttir“.  Undanfarið hafa flestar verið merktar „blaðamanninum“ Inga Frey Vilhjálmssyni. Ég leyfi mér að vísa skrifum hans um mig til föðurhúsanna.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×