Viðskipti innlent

Iðgjöld kvenna hækka en karla lækka

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Iðgjöld gætu hækkað fyrir konur og lækkað fyrir karlmenn.
Iðgjöld gætu hækkað fyrir konur og lækkað fyrir karlmenn.
Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er varðar breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, er það meðal annars lagt til að frá og með næstu áramótum verði vátryggingafélögum óheimilt að nota kyn viðskiptavinar sem stuðul við útreikninga í tengslum við ákvörðun um iðgjald eða við ákvörðun um bótafjárhæðir vegna vátryggingasamnings eða annarrar skyldrar fjármálaþjónustu.

Þá segir einnig í frumvarpinu að kostnaður tengdur meðgöngu og fæðingu megi ekki leiða til mismunandi iðgjalda og bóta fyrir einstaklinga.

Frumvarpinu er ætlað að leiða til jafnari stöðu kynjanna á tilteknum sviðum ásamt því að auka réttarvernd beggja kynja á grundvelli laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að leiða megi að því líkur að þessar breytingar muni hafa áhrif á ákvörðun tryggingafélaga um iðgjöld vegna vátrygginga, svo sem líf- og sjúkdómatrygginga, og gætu þau eftir atvikum hækkað fyrir konur og lækkað fyrir karlmenn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×