Viðskipti innlent

Tuttugasta útgáfa EVE Online kemur út í dag

Samúel Karl Ólason skrifar
Leikurinn Eve Online hefur tekið miklum breytingum á þeim tíu árum frá því hann kom fyrst út. Í dag kemur tuttugasta viðbót leiksins út, en hún ber nafnið Rubicon. Í tilkynningu frá CCP, framleiðanda leiksins, segir að Rubicon boði nýja tíma í þróun leiksins.

“Með Rubicon erum við að taka fyrsta stóra skrefið í átt að nýrri framtíðarsýn fyrir EVE Online á öðrum áratugi leiksins.” Segir Andie Nodgren framleiðslustjóri EVE Online í tilkynningunni. “Þetta er byrjunin á nýrri röð viðbóta við leikinn sem mun breyta heimi EVE Online, New Eden, um alla tíð. Við erum að gefa spilurum leiksins meiri stjórn á þróun heimsins en nokkru sinni fyrr og setja af stað atburðarrás sem leiðir spilara inn á nýjar brautir og á vit nýrra ævintýra.”

Nýjungar við leikinn eru oft þróaðar í samvinnu við þá sem spila leikinn og lýðræðislega kjörið ráð þeirra. „Þessar nýju útgáfur hafa tryggt áframhaldandi þróun EVE Online, vöxt EVE heimsins og árlega aukningu áskrifenda leiksins sem í dag telja um 500.000.“

EVE Online heimurinn samanstendur að yfir 67.000 plánetum, rúmlega 340.000 tunglum og 7.929 sólkerfum. Rubicon mun bjóða spilurum leiksins að kanna ný svæði heimsins og komast yfir tæknilausnir og náttúruauðlindir hans. Einnig standa ný skip spilurum til boða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×