Innlent

Kærð fyrir tvíveri - „Ekki heyrt um tvöfalt tvíkvæni fyrr“

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
A var semsagt kvæntur B sem var gift C sem var kvæntur D,“ segir Sveinn Andri.
A var semsagt kvæntur B sem var gift C sem var kvæntur D,“ segir Sveinn Andri. mynd/GVA
„Ég kærði í dag fyrir hönd skjólstæðings míns eiginkonu hans fyrir tvíkvæni. Það sem er áhugavert í þessu máli er að konan hafði sjálf fengið ógildingu á fyrri hjúskap sínum þar sem hinn eiginmaður hennar var í öðru hjónabandi þegar þau giftu sig,“ segir Sveinn Andri Sveinsson lögmaður.

„Þetta er nokkuð flókið mál til að skilja kannski,“ segir Sveinn Andri. En hann lýsir atvikum sem svo að maðurinn sem er erlendur ríkisborgari og er búinn að kæra eiginkonu sína, gekk í hjúskap með konunni hér á landi í ágúst 2004.  Það sem maðurinn vissi ekki þá var að konan hafði gift sig í  heimalandi sínu fyrr á árinu, nánar tiltekið í janúar.

Konan fór svo fram á ógildingu fyrri hjúskapar síns sumarið 2005 á þeim forsendum að eiginmaður hennar, sá sem hún giftist fyrst, hefði verið í hjúskap þegar hann giftist henni.

Sveinn Andri segir að maðurinn hafi ekki komist að fyrri hjúskap eiginkonu sinnar fyrr en við sambúðarslit á þessu ári. Þá hafi lögmaður mannsins í heimalandi hans komist að þessu og tilkynnt manninum um málið.

„Í tæpt ár voru eiginkonan og maðurinn sem hún giftist á undan bæði tvíkvænt. A var semsagt kvæntur B sem var gift C sem var kvæntur D,“ segir Sveinn Andri.

Hann segir tvíkvæni vera afar sjaldgæft hér á landi og hvað þá tvöfalt tvíkvæni, hann minnist þess ekki að hafa heyrt um slíkt áður.

Tvíkvæni (í tilviki karla) og tvíveri (í tilviki kvenna) er refsivert samkvæmt íslenskum lögum og Sveinn Andri segir að tvíkvæni geti verið ógildingarástæða hjúskapar. En þegar einhver tími er liðinn eins og í þessu tilviki, þá sé hægt að fara fram á lögskilnað vegna tvíkvænis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×