Innlent

Færeyingar bjóða Íslendingum til tónlistarveislu í Hörpu

Heimir Már Pétursson skrifar
Færeyska sinfóníuhljómsveitin heldur upp á þrjátíu ára afmæli sitt með fyrstu heimsókn hljómsveitarinnar til Íslands og býður Íslendingum á frýja tónleika í Hörpu annað kvöld.

Fullt var út úr dyrum á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Færeyja í Hofi á Akureyri í gærkvöldi. Færeyingarnir eru rausnarlegir í tilefni 30 ára afmælis hljómsveitarinnar í Hörpu annað kvöld, því frítt er á tónleikana á meðan húsrúm leyfir.

Efnisskráin er afar spennandi og meðal annars verður frumflutt verkið Veitsla eftir færeyska tónskáldið Sunnleif Rasmussen, sem segir verkið fullt af gleði. En það var samið að beiðni hljómsveitarinnar í tilefni afmælisins.

„Veitsla er gleðiverk þar sem leikið er með allar hliðar veislu. Það er gleði og gaman og eins og hent getur í veislum fer allt á annan endan á köflum. Þar má greina drukkna menn syngja og flest það sem fólk upplifir  á mannfögnuðum,“ segir Sunnleif.

Að auki flytur hljómsveitin hin gífurlega vinsæla Píanókonsert nr. eitt eftir Tchaikovsky og Tilbrigði Opus 36 eftir breska 19. aldar tónskáldið Edward Elgar. En góðvinur Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Bernharður Wilkinson,  stjórnar færeysku sveitinni.

„Við vonum að Íslendingar þyggi boðið og mæti í Hörpu annað kvöld og samgleðjist með okkur. Við lítum auðvitað upp til stóra bróður hér á Íslandi og viljum vera saman þegar mikið stendur til,“ segir Bernharður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×