Innlent

Skortur á nýrum vaxandi

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
„Ég verð klökkur þegar ég hugsa til þess að sumir séu reiðbúnir að fórna heilsu sinni fyrir aðra.“ Þetta segir einn af tuttugu nýrnasjúklingum hér á landi sem nú bíða eftir nýraígræðslu. Nýragjafi segir þetta vera stóra gjöf, en nauðsynlega.

Í dag eru tuttugu íslendingar með nýrnabilun á lokastigi og bíða nú eftir gjafalíffæri. Þrátt fyrir að tíðni nýraígræðsla sé óvenjulega há hér á landi þá eru skortur á nýrum vaxandi. Sérstöku átaki Landspítalans og samstarfsaðila var ýtt úr vör í dag, með opnum vefsíðunnar nýraígræðsla. Þar má nálgast ítarlegar upplýsingar um nýragjafir ásamt viðtölum við bæði nýraþega og gjafa.

„Þetta er ekki sjálfgert, það er ekki sjálfsagt að gera þetta. Þeir sem gefa nýra eru í okkar augum hetjur,“ segir Hildigunnur Friðjónsdóttir, hjúkrunarfræðingur. „Sextíu eða sjötíu prósent af þeim sem þurfa á nýrum að halda fá þau frá lifandi gjöfum og það er auðvitað frábært.“

Hannes Þórisson er einn af þessum tuttugu sem nú bíða eftir nýra. Hann hefur glímt við nýrnasjúkdóm frá fæðingu og fer þrisvar í viku í blóðskilun, fjórar klukkustundir í senn. „Þetta er pínulítið falið í samfélaginu,“ segir Hannes. „Það er helst að fólk þekki þetta ef það tengist einhverju með nýrnasjúkdóm. Maður verður hálf klökkur þegar maður hugsar um þá sem gefa nýra, að þau skuli fórna heilsu sinni fyrir aðra.“

Um þessar mundir er áratugur liðinn frá fyrstu nýraígræðslunni á Íslandi. Síðan þá hafa rúmlega sjötíu íslendingar gengist undir ígræðslu á Landspítalanum. Þorvaldur Örlygsson gaf dóttur sinni, Ísabellu, nýra þegar hún var þriggja ára gömul. Ísabella opnaði vefinn í dag.

„Við horfum til baka hér mæðginin, við þurftum náttúrulega að lesa fram og til baka um þetta ferli. Núna er kominn íslenskur vefur þar sem við getum fengið allar upplýsingar og undirbúið sig fyrir aðgerð,“ segir Þorvaldur.

„Þetta er mikil gjöf að gefa. Ég efast ekki um að ef einhver myndi gefa mér nýra þá yrði ég þakklátur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×