Innlent

Ný viðbygging við Þjóðleikhúsið

Kristján Hjálmarsson skrifar
Framkvæmdir standa nú yfir við Þjóðleikhúsið.
Framkvæmdir standa nú yfir við Þjóðleikhúsið. Mynd/Pjetur
Framkvæmdir standa nú yfir við Þjóðleikhúsið en verið er að reisa leikmyndageymslu við austurhlið hússins.

Að sögn Ara Matthíassonar, framkvæmdastjóra Þjóðleikhússins, er geymsluaðstaða í leikhúsinu mjög lítil og sem dæmi nefnir hann að taka hafi þurft út leikmyndina í Dýrunum í Hálsaskógi fyrir fullu húsi.

„Stundum eru þrjár til fjórar sýningar í gangi á hverjum tíma og þá lendum við í vandræðum með leikmyndirnar. Við höfum stundum þurft að búta þær niður í frumeindir. Það getur verið mjög dýrt," segir Ari.

Fyrir nokkrum árum fékk Þjóðleikhúsið auka fjárveitingu til að kaupa Prentarahúsið svokallaða sem stendur fyrir ofan leikhúsið á Hverfisgötunni. Þá stóð til að reisa byggingu á millli húsanna tveggja, sem tengdi þau saman. Prentarahúsið var þó ekki til sölu á þeim tíma en var sett á sölu eftir hrun. Þá voru engir peningar til hjá ríkinu til að kaupa húsið.

„Mennta- og menningarmálaráðuneytið féllst hins vegar á að reisa þetta létta hús, bráðabirgðahús, sem mun auk pláss fyrir leikmyndir um helming. Síðan verður sett lyfta í húsið sem gengur niður í smíðaverkstæðið okkar," segir Ari. Verkið var boðið út í júní síðastliðnum.

Ari segir að Þjóðleikhúsið sé barns síns tíma enda hófst bygging þess á þriðja áratug síðustu aldar.

„Við eigum von á að fyrsta áfanganum verði lokið um miðjan desember," segir Ari sem vonast til að húsið sjálft verði tekið í notkun næsta sumar.

Að sögn Ara verður hægt að fjarlægja bygginguna ef þess þarf. Hún sé ekki steypt og límtrésbitar notaðir í burðarvirkinu.

„Fagurfræðilega mun hún ekki skera í augun, þetta verður ekki ljót skemma sem er búið að klína utan í húsið," segir Ari. Þó skemman sé bráðabirðgahúsnæði gerir Ari ekki ráð fyrir að hún verði látin víkja í nánustu framtíð.

„Við erum ekki að fara í aðrar byggingaframkvæmdir við Þjóðleikhúsið og því get ég trúað að skemman verði hér einhvern tíma."

Ari segist ekki vita nákvæman kostnað við bygginguna en hann sé í kringum 100 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×